Viðamikil dagskrá framundan hjá TR



Öflugri dagskrá Taflfélags Reykjavíkur síðastliðið haust verður fylgt eftir af krafti á nýju ári. Þegar er hafið hið sögufræga Skákþing Reykjavíkur sem nú er haldið í 84. sinn. Meðal þátttakenda eru einn stórmeistari og fjórir alþjóðlegir meistarar en þegar þetta er skrifað er einungis tveimur umferðum af níu lokið svo snúið er að spá fyrir um framvindu mála. Skákþingið í ár er haldið til heiðurs Friðriki Ólafssyni sem verður áttræður meðan á mótinu stendur. Fylgist með gangi mála á Skákþinginu hér.

 

Skákþingið er aðeins toppurinn á ísjakanum því alls eru hátt í tuttugu viðburðir á döfinni hjá TR á komandi vetrar- og vormánuðum ásamt öflugum barna-og unglingaæfingum í viku hverri. Skemmtikvöld félagsins verða á sínum stað en þau hafa vakið stormandi lukku og þá má nefna hið sívinsæla Öðlingamót sem hefst í lok mars. Nýtt Vormót félagsins verður haldið öðru sinni og þá heldur Bikarsyrpan fyrir börnin áfram ásamt því að blásið verður til leiks í Nóa Síríusar Páskaeggjasyrpunni um miðjan mars.

Hér hefur ekki allt verið talið upp en starfsárinu lýkur með glæsibrag í maí með uppskeruhátíð fyrir yngri kynslóðina og síðan allsherjar úrslitakvöldi Skemmtikvöldanna en ítarlega dagskrá má finna í starfsáætlun félagsins þar sem að auki er útlistað nánar fyrirkomulag barna- og unglingastarfsins.

  • Starfsáætlun TR vorið 2015