Úrslit eftir bókinni í 1. umferð Öðlingamótsins



Skákmót Öðlinga hófst í gærkvöldi en mótið telur að þessu sinni 30 keppendur.  Stigahæstur með 2324 Elo stig er Fide meistarinn Sigurður Daði Sigfússon en næstur honum með 2225 stig kemur núverandi Öðlingameistari, Þorvarður F. Ólafsson.  Þá má nefna að alþjóðlegi meistarinn Sævar Bjarnason er á meðal þátttakenda en Sævar missir varla úr mót þessi misserin.

Í fyrstu umferðinni vann stigahærri keppandinn þann stigalægri í öllum tilfellum að undanskilinni viðureign Páls Sigurðssonar og Magnúsar Kristinssonar en þeir sættust á skiptan hlut.  Önnur umferð fer fram næstkomandi miðvikudagskvöld og þá mætast m.a. Sigurður Daði og Eiríkur K. Björnsson, Halldór Garðarsson og Sævar sem og Hrafn Loftsson og Siguringi Sigurjónsson.