Tinna Kristín efst með fullt hús á U-2000 mótinu



Jósef Omarsson er einn fjölmargra ungra og efnilegra keppenda í U-2000 mótinu.

Jósef Omarsson er einn fjölmargra ungra og efnilegra keppenda í U-2000 mótinu.

Tinna Kristín Finnbogadóttir er ein með fullt hús eftir þriðju umferð í U-2000 mótinu. Hún fékk frían vinning í þriðju umferðinni þar sem andstæðingurinn mætti ekki. Mjög jafnt er í öðru sæti þar sem tólf keppendur hafa 2,5 vinning. Af skákum gærkveldsins má nefna að á öðru borði tefldu Lisseth Acevedo og Loftur Baldvinsson þar sem skákin var alla tíð í jafnvægi og leystist upp í jafntefli snemma kvölds.

Ungu strákarnir Benedikt Þórisson, Arnar M. Heiðarsson og Páll Andrason hafa allir teflt mjög vel. Benedikt var hugsanlega í mátneti smástund í endataflinu en losnaði vel undan því og var með talsvert betra tafl sem Haraldi Baldurssyni tókst að lokum að stýra í jafntefli. Reynsluboltarnir Þór Valtýsson, Sigurjón Þ. Friðþjófsson og Kristján Ö. Elíasson mörðu allir sigur að lokum í frekar jöfnum skákum. Sigríður B. Helgadóttir missti niður vænlegt endatafli á móti Birni G. Stefánssyni og lenti í óverjandi mátneti.

Það gerist ekki oft að alnafnar mætist við skákborðið. Sá eldri sigraði að þessu sinni eftir harða baráttu.

Það gerist ekki oft að alnafnar mætist við skákborðið. Sá eldri sigraði að þessu sinni eftir harða baráttu.

Skondnasta pörunin í 3. umferð var Þorsteinn Magnússon gegn Þorsteini Magnússyni (sjá mynd). Þeir tefldu langa og góða skák þar sem hinn eldri sigraði með því að vera einum peðsleik á undan í kóngsendatafli. Joshua Davíðsson var lengi í bóndabeygju en vann að lokum eftir að andstæðingurinn hafði opnað glufu í peðastöðunni og hleypt kónginum innfyrir í stöðuna sína. Flestir eru nú komnir á blað eftir að Adam Omarsson, Guðrún Fanney Briem og Arnór Gunnlaugsson unnu góða sigra á neðstu borðum.

Fjórða umferð fer fram næstkomandi miðvikudagskvöld og hefst kl. 19.30. Alltaf heitt á könnunni og gott andrúmsloft í Birnukaffi!

Chess-Results