Í gærkvöldi fór þriðja umferð fram og voru úrslit flest eftir bókinni þó nokkur jafntefli hafi litið dagsins ljós þar sem stigamunur var nokkur. Á efsta borði sigraði Fide meistarinn Davíð Kjartansson Jóhann H. Ragnarsson í snarpri skák þar sem Jóhann fórnaði manni snemma tafls. Davíð varðist vel og svaraði að bragði og hafði sigur í 24 leikjum. Á öðru borði þurfti Fide meistarinn Einar Hjalti Jensson að mikið fyrir sigrinum á hinum unga og efnilega Oliver Aroni Jóhannessyni í spennandi skák. Einar hafði sigur eftir 58 leiki en Oliver lék af sér manni í tvísýnu endatafli þar sem Einar hafði þó peði meira og betri stöðu.
Þá sigraði stórmeistari kvenna, Lenka Ptacnikova, Pál Sigurðsson eftir laglega fléttu í miðtaflinu en áður hafði verið mikið um mannatilfærslur. Omar Salama sigraði svo Vigfús Ó. Vigfússon, einnig eftir góða fléttu sem opnaði kóngsstöðu Vigfúsar upp á gátt og mátnet var ekki umflúið. Davíð, Einar Hjalti, Lenka og Omar leiða því með fullu húsi að loknum þremur umferðum en átta keppendur koma næstir með 2,5 vinning.
Í fjórðu umferð sem fer fram á sunnudag mætast á efstu borðum Davíð og Omar, Lenka og Einar, og Daði Ómarsson og Þór Már Valtýsson.
- Úrslit, staða og pörun
- Dagskrá og upplýsingar
- Skákmeistarar Reykjavíkur
- Mótstöflur síðustu ára
- Myndir (JHR)