SÞR #5: Stefán Bergsson einn eftir með fullt hús og efstur



IMG_9712

Það var ekki lognmollunni fyrir að fara á efstu borðunum í 5. umferð á Skákþinginu á
miðvikudagskvöldið. Á tíu efstu borðunum litu bara tvö jafntefli dagsins ljós. Hrafn Loftsson
(2163) hélt jöfnu með því að gefa peð gegn Degi Ragnarssyni (2332) á öðru borði en tryggja sér
nægileg gagnfæri gegn kóngi Dags í endatafli. Þá jafnaði Þorvarður F. Ólafsson (2178) svo
rækilega taflið gegn Braga Halldórssyni (2082) á fimmta borði að ekki var annað gera eftir 20.
leiki en að sættast á jafnan hlut.

20180124_193955-2
Þar með eru rólegheitin upp talin, því á hinum átta borðunum var teflt af hörku og sviptingar
miklar. Á efsta borði hjá þeim Stefáni Bergssyni (2093) og Birni Hólm Birkissyni (2084) var
frumlega teflt í byrjuninni en að lokum kom upp einhvers konar Sikileysk staða með vissum
Grand Prix einkennum, fyrir þá sem til þekkja í þeirri mætu byrjun. Átök brutust út á miðborði
sem enduðu með því að hvorir um sig höfðu hættuleg frípeð. Staða Stefáns var þó vænleg
megnið af skákinni og Björn lenti í miklu tímahraki. Svo miklu, að þegar Stefán hótaði báðum
hrókum Björns í 36. leik, gafst Birni ekki tími til að sjá skemmtilega gagnsóknarleið sem hefði
flækt málin töluvert fyrir Stefáni. Björn féll á tíma áður en hann náði að leika og Stefán er því
einn efstur með fullt hús eftir umferðina og vinningi fyrir ofan næstu menn.

20180124_193928-2
Þeir Einar Hjalti Jensson (2336) og Vignir Vatnar Stefánsson (2304) áttu það sammerkt að
taktísk handvömm kostaði þá lið og skákina; Einar á þriðja borði gegn Hilmi Frey Heimissyni
(2136) en Vignir á fjórða borði gegn Gauta Pál Jónssyni (2161).
Björgvin Víglundsson (2167) rétti sinn hlut gagnvart ungum og efnilegum liðsfélögum í TR með
því að vinna öruggan sigur á Aroni Þór Mai (2066) á sjötta borði. Björgvin hafði þvílíka yfirburði í
rými að bæði hrókur Arons og riddari á miðborði áttu enga reiti og voru báðir á leið yfir móðuna
miklu þegar Aron gaf.

IMG_9720
Bragi Þorfinnsson (2436) fékk hæpna stöðu upp úr byrjuninni gegn Eiríki K. Björnssyni (1936) á
sjöunda borði og stóð höllum fæti í miðtaflinu. Hann fórnaði hins vegar peði fyrir
kóngsóknarfæri; Eiríkur tapaði alveg taktíska þræðinum í tímahrakinu og Bragi vann örugglega.
Jóhann Ragnarsson (1991) fórnaði tveimur mönnum gegn Sigurbirni Björnssyni (2288) sem lét
sér hvergi bregða, þáði mennina og innbyrti vinninginn af öryggi.

IMG_9726
Aftur á móti brá svo við í þessari umferð að gagnstætt efri borðunum voru úrslit að mestu eftir
bókinni annars staðar en sú hefur hreint ekki verið raunin í mótinu fram til þessa.
Sjötta umferðin hefst kl. 13 n.k. sunnudag (28. janúar) í Skákhöll TR í Faxafeni.
Nánar um úrslit, stöðu og pörun á Chess results og þar eru líka skákirnar, hver annarri
skemmtilegri.