Það var ekki lognmollunni fyrir að fara á efstu borðunum í 5. umferð á Skákþinginu á
miðvikudagskvöldið. Á tíu efstu borðunum litu bara tvö jafntefli dagsins ljós. Hrafn Loftsson
(2163) hélt jöfnu með því að gefa peð gegn Degi Ragnarssyni (2332) á öðru borði en tryggja sér
nægileg gagnfæri gegn kóngi Dags í endatafli. Þá jafnaði Þorvarður F. Ólafsson (2178) svo
rækilega taflið gegn Braga Halldórssyni (2082) á fimmta borði að ekki var annað gera eftir 20.
leiki en að sættast á jafnan hlut.
Þar með eru rólegheitin upp talin, því á hinum átta borðunum var teflt af hörku og sviptingar
miklar. Á efsta borði hjá þeim Stefáni Bergssyni (2093) og Birni Hólm Birkissyni (2084) var
frumlega teflt í byrjuninni en að lokum kom upp einhvers konar Sikileysk staða með vissum
Grand Prix einkennum, fyrir þá sem til þekkja í þeirri mætu byrjun. Átök brutust út á miðborði
sem enduðu með því að hvorir um sig höfðu hættuleg frípeð. Staða Stefáns var þó vænleg
megnið af skákinni og Björn lenti í miklu tímahraki. Svo miklu, að þegar Stefán hótaði báðum
hrókum Björns í 36. leik, gafst Birni ekki tími til að sjá skemmtilega gagnsóknarleið sem hefði
flækt málin töluvert fyrir Stefáni. Björn féll á tíma áður en hann náði að leika og Stefán er því
einn efstur með fullt hús eftir umferðina og vinningi fyrir ofan næstu menn.
Þeir Einar Hjalti Jensson (2336) og Vignir Vatnar Stefánsson (2304) áttu það sammerkt að
taktísk handvömm kostaði þá lið og skákina; Einar á þriðja borði gegn Hilmi Frey Heimissyni
(2136) en Vignir á fjórða borði gegn Gauta Pál Jónssyni (2161).
Björgvin Víglundsson (2167) rétti sinn hlut gagnvart ungum og efnilegum liðsfélögum í TR með
því að vinna öruggan sigur á Aroni Þór Mai (2066) á sjötta borði. Björgvin hafði þvílíka yfirburði í
rými að bæði hrókur Arons og riddari á miðborði áttu enga reiti og voru báðir á leið yfir móðuna
miklu þegar Aron gaf.
Bragi Þorfinnsson (2436) fékk hæpna stöðu upp úr byrjuninni gegn Eiríki K. Björnssyni (1936) á
sjöunda borði og stóð höllum fæti í miðtaflinu. Hann fórnaði hins vegar peði fyrir
kóngsóknarfæri; Eiríkur tapaði alveg taktíska þræðinum í tímahrakinu og Bragi vann örugglega.
Jóhann Ragnarsson (1991) fórnaði tveimur mönnum gegn Sigurbirni Björnssyni (2288) sem lét
sér hvergi bregða, þáði mennina og innbyrti vinninginn af öryggi.
Aftur á móti brá svo við í þessari umferð að gagnstætt efri borðunum voru úrslit að mestu eftir
bókinni annars staðar en sú hefur hreint ekki verið raunin í mótinu fram til þessa.
Sjötta umferðin hefst kl. 13 n.k. sunnudag (28. janúar) í Skákhöll TR í Faxafeni.
Nánar um úrslit, stöðu og pörun á Chess results og þar eru líka skákirnar, hver annarri
skemmtilegri.