Stelpuskákæfingar Taflfélags Reykjavíkur í fullum gangi



Öflugt barna-og unglingastarf Taflfélags Reykjavíkur er á miklu flugi og vill félagið vekja athygli á sérstökum skákæfingum fyrir stelpur og konur á öllum aldri. Stelpuæfingarnar eru á laugardögum kl. 12.30-13.45 og eru þær ókeypis líkt og aðrar barna- og unglingaæfingar T.R.

 

Stelpuæfingarnar hafa vakið mikla lukku og sífellt fleiri stúlkur sækja nú vikulegar æfingar Taflfélags Reykjavíkur. Félagið sendi eitt félaga stúlknasveit á Íslandsmót unglingasveita í haust og stóð sú kornunga sveit sig með mikilli prýði.

 Ásamt því að vera í Stelpuskákhóp T.R. eru einnig stelpur í hinum skákhópum félagsins, þ.e. Afrekshópnum og á Laugardagsæfingunum. Eldri kynslóðum, s.s. mömmum og ömmum, er velkomið að taka þátt í stelpuhópnum. 

Góður kjarni stelpna sækir æfingarnar, sem hófust fyrir tveimur árum, og er bæði lögð áhersla á skákþjálfun og taflmennsku. Námsefnið sem notað er á æfingunum er faglega unnið og geysivinsælt enda allt í senn, hnitmiðað, litríkt og skemmtilegt. Skákþjálfari á æfingunum er Sigurlaug Regína Friðþjófsdóttir, sem kennt hefur krökkum um árabil og er reynd landsliðskona í skák.

 Barna- og unglingaæfingar T.R. eru á laugardögum í húsnæði félagsins að Faxafeni 12. Frítt er á allar æfingarnar. 

  • 12.30-13.45 Stelpuskákæfing – eldri kynslóðir hvattar til að mæta
  • 14.00-15.15 Opnar æfingar fyrir börn fædd 2001 og síðar
  • 15.15-16.00 Félagsæfing fyrir börn fædd 2001 og síðar