Í gærkvöld fór fram þriðja skemmtikvöld Talffélags Reykjvíkur þar sem keppt var um titilinn Karlöndin 2014. Átján keppendur voru mættir til leiks til að hita upp fyrir heimsmeistareinvígi Carlsen og Anand sem hófst í dag með bráðskemmtilegri skák. Það var ekki síður fjörlega teflt á skemmtikvöldinu og keppnin hörð. Forgjafarkerfið á klukkunni var skemmtileg nýbreitni og máttu margir stigaháir keppendur með naumt skammtaðan tíma hafa sig allan við að knésetja sér mun stigalægri andstæðinga.
Ingvar Þór Jóhannesson gékk vel í byrjun og var einn með fullt hús eftir fyrstu fjórar skákirnar, en þá var gert langþráð hlé á taflmennskunni til að heimsækja vini vor á Billiardbarnum. Athygli vakti að fullyrðingu Björns Þorfinnssonar fyrir mót þess efnis að það væri nánast formsatriði að vinna var algjörlega hafnað í byrjun móts. Það voru Stefán Steingrímur og Jón Viktor sem sáu um að bjóta drauma Húnsins um Karlöndina 2014.
Eftir fyrsta hlé mætti Ingvar hinum eitilharða Don Róbert Lagerman og var ekki eins brosmildur eftir þá rimmu og fyrir. Róbert vann 1.5 – 0.5 og tók þar með forystuna í mótinu. Athyglisverð viðureign fór þá einnig fram milli Björns Þorfinnssonar og Pirc sérfræðingsins síkáta Kristjáns Arnar Elíassonar. Svo virtist sem Kristján ætlaði að feta sömu braut og Stefán og Jón V. og hafna Birni og hafði yfirburðatafl í fyrri skákinni. Með tvær og hálfa mínútu á klukkunni gegn 25 sekúndum andstæðingsins lék hann svo leik mótsins.
Í sirkað þessari stöðu fékk Kiddi þá frábæru vídeoflugu í höfuðið að gott væri bara að skipta upp á drottningunni sinni og hróknum og vinna svo létt með peðunum. Hann lék því hinum epíska leik Dd2! til að leppa hrókinn! Björn nýtti þá öll 2378 stigin sín til að svara þessari snilld með Hxd2! Kristján sá sitt óvænna og gaf. Hann fór svo örugglega niður í logum í seinni skákinni og báðir voru þeir kapparnir svo meira og minna íkjallaranum það sem eftir lifði móts.
Í fjórðu umferð mætti Róbert Stefáni Kristjánssyni og lauk þeirri viðureign 1-1. Það nýtti skákkennarinn knái Björn Ívar Karlsson sér vel og leiddi með hálfum vinning þegar annað hlé var gert á taflmennskunni. Fyrir lokaumferðina hafði hann ennþá hálfan vinning á Stefán Kristjánsson og mætti Jóhanni Ingvasyni í lokaumferðinni meðan Stefán tefldi við Ingvar Þór. Björn Ívar og Jóhann sættust á skiptan hlut, meðan Stefán knúði fram 1.5 – 0.5 sigur á internet stjörnunni Ingvar Þór.
Stefán og Björn Ívar enduðu jafnir með níu vinninga og hálfum betur meðan Jóhann Ingvason náði þriðja sætinu með 8 vinninga. Stefán var úrskurðaður sigurvegari á bindisbroti og er því Karlöndin 2014. Fékk hann í verðlaun forláta veldissprota með þremur ljósastillingum. Hann er því kominn í pottinn líkt og Mórinn 2014 Hannes Hlífar Stefánsson fyrir skemmtikvöldakóngakeppni vorsins.
Skemmtikvöldið var vel heppnað, engin deiluefni komu upp í skákunum þrátt fyrir að Jón Gunnar Jónsson hefði verið meðal keppenda, og allir skemmtu sér konunglega á Billiardbarnum í mótslok.
Taflfélag Reykjavíkur óskar Stefáni til hamingju með sigurinn og titilinn og vill þakka öllum þeim miklu meisturum sem tóku þátt. Síðasta skemmtikvöld félagsins fyrir jól verður svo haldið í lok nóvember.