Starfsár TR hófst með stórskemmtun á Stórmóti



Að venju hófst starfsárið í Taflfélagi Reykjavíkur með hinu stórskemmtilega Stórmóti Árbæjarsafns og Taflfélags Reykjavíkur. Þátttaka var með slíkum ágætum að einungis fyrir snarræði Eiríks Björnssonar sem skutlaðist í Faxafenið eftir fleiri töflum var hægt að bæta síðasta keppandanum við, en 38 keppendur tóku þátt sem er þónokkuð meira en í fyrra og ansi mikið meira en skráning stefndi í til að byrja með.

Eins og ávallt var umgjörðin á Árbæjarsafni til fyrirmyndar; það vantaði ekki kaffi, djús og bakkelsi, auk þess sem Kornhúsið er stórskemmtilegur skákstaður.

Mótið hófst með leiftursókn Eiríks K. Björnssonar, sem hafði fullt hús eftir 5 umferðir og hafði m.a. lagt Davíð Kjartansson og Ólaf Kristjánsson. Sjötta umferðin reyndist mikill örlagavaldur en þá náði Róbert Lagerman að stöðva Eirík, auk þess sem Ólafur Kristjánsson tapaði fyrir Davíð Kjartanssyni með því að leika sinn annan ólöglegan leik í kolunnu endatafli. Við þetta náði Davíð vopnum sínum og vann í næstu tveimur umferðum toppuppgjör við Róbert, annars vegar, og Pál Andrason hins vegar. Eiríkur og Ólafur misstu hinsvegar aðeins dampinn við þessi töp sín, en með sigri í síðustu umferð náði Eiríkur þó skiptu 2. sæti með Róberti, Páli og Birki Karli Sigurðssyni og hlutu þeir 6 vinninga. Ótvíræður sigurvegari var þó Davíð Kjartansson sem hlaut 7 vinninga og er þetta í fjórða sinn sem Davíð ber sigur úr býtum.

Um önnur úrslit vísast í chess-results: http://chess-results.com/tnr462470.aspx?lan=1&art=4&fed=ISL