75 keppendur hófu í dag leik á 83. Skákþingi Reykjavíkur og er það mesta þátttaka í a.m.k. fimmtán ár og líklega þarf að fara 5-10 ár lengra aftur í tímann til að finna Skákþing með sambærilegum fjölda keppenda. Mótið er vel skipað og styrkleikabreiddin er góð þar sem er að finna allt frá ungum byrjendum sem eru að stíga sín fyrstu skref í skákinni upp í margreynda alþjóðlega meistara. Þetta er einkennismerki Skákþingsins; það er öllum opið og skákmönnum af öllum styrkleikum gefst þannig færi á að spreyta sig gegn mörgum af sterkustu skákmönnum þjóðarinnar.
Tveir alþjóðlegir meistarar, einn stórmeistari kvenna og og þrír Fide meistarar eru á meðal keppenda, þeirra stigahæstur alþjóðlegi meistarinn Jón Viktor Gunnarsson (2412). Næstur honum er Fide meistarinn Sigurbjörn Björnsson (2375) og Fide meistarinn Einar Hjalti Jensson (2347) er þriðji í stigaröðinni. Alls hafa 16 keppendur meira en 2000 Elo stig, sex keppendur hafa 1800-2000 stig og tíu keppendur hafa 1600-1800 stig.
Skákþingið hófst með setningarræðu formanns T.R., Björns Jónssonar, þar sem hann m.a. setti sögu mótsins í samhengi við fæðingarár fyrsta stórmeistara Íslendinga, Friðriks Ólafssonar, sem var þremur árum eftir að fyrsta Skákþingið var haldið árið 1932. Þá bauð hann alla þátttakendur velkomna og bar fram sérstakar þakkir til sterkustu skákmannanna sem telja það ekki eftir sér að „leggja stigin sín að veði“ ár eftir ár í opnum mótum sem þessum en án þeirra gæti Skákþingið ekki orðið eins stórt í sniðum og raunin er.
Við setningarathöfnina veitti Björn jafnframt verðlaun fyrir Jólahraðskákmót T.R. þar sem Jóhann Ingvason sigraði, Vignir Vatnar Stefánsson varð annar og Elsa María Kristínardóttir varð þriðja ásamt Erni Leó Jóhannssyni. Þá veitti hann Pétri Jóhannessyni sérstaka viðurkenningu fyrir dygga þátttöku í mótum félagsins í áraraðir en áður hafði félagi Péturs, Björgvin Kristbergsson, fengið samskonar viðurkenningu. Að því loknu kallaði formaðurinn yngsta keppanda mótsins upp, hinn sex ára Adam Omarsson, til að leika fyrsta leik mótsins í viðureign alþjóðlega meistarans Jóns Viktors og Siurans Estanislau Plantada. Þess má geta að Adam er sonur skákhjónanna Lenku Ptacnikovu stórmeistara kvenna, og Omars Salama.
Því næst hóf keppnisandinn innreið sína í salakynni T.R. og baráttan hófst á 37 skákborðum. Þar sem um opið mót er að ræða er stigamunur keppenda í fyrstu umferð mjög mikill og að þessu sinni litu engin óvænt úrslit dagsins ljós ef frá er skilið tap Veroniku Steinunnar Magnúsdóttur gegn Jóni Þór Helgasyni sem er stigalaus. Það var þó ekkert gefið í skákunum og nú sem endra nær notuðu keppendur gjarnan tímann milli leikja til að rölta um vígvöllin til að líta á aðrar orrustur, gæða sér á ljúffengum kræsingum í Birnukaffi og kíkja í leiðinni á úrvalið hjá Sigurbirni bóksala sem hefur farið mikinn í skákbókasölu sinni undanfarin misseri.
Pörun fyrir aðra umferð, sem fer fram á miðvikudagskvöld, er ljós en þá mætast m.a. alþjóðlegi meistarinn Jón Viktor Gunnarsson og Örn Leó, Fide meistarinn Sigurbjörn og Ingvar Örn Birgisson, sem og Fide meistarinn Einar Hjalti og Vignir Bjarnason. Áhorfendur eru velkomnir, aðgangur er ókeypis og veitingar fást gegn vægu gjaldi. Taflmennskan hefst kl. 19.30.
- Úrslit, staða og pörun
- Myndir
- Mótstöflur SÞR
- Skákmeistarar Reykjavíkur