Sigurbjörn Björnsson Skákmeistari Reykjavíkur 2020 með fullu húsi!



9-1

Sigurbjörn og Gauti einbeittir í lokaumferðinni. Mynd: Þórir Benediktsson.

Það sem stendur upp úr í Skákþingi Reykjavíkur 2020 er að sjálfsögðu sögulegur sigur Fide-meistarans Sigurbjörns J. Björnssonar en hann vann allar skákir sínar, níu að tölu. Samkvæmt heimildum er þetta fjórða sinn sem mótið vinnst með fullu húsi.  Árið 1960 vann Friðrik Ólafsson úrslitakeppnina með fullu húsi, sjö af sjö. Björn Þorsteinsson vann með níu af níu árið 1964 og árið 1993 vann Guðmundur Gíslason með 11 vinninga af 11. 

9-3

Lokaumferðin 

Úrslit lokaumferðarinnar voru að mestu eftir bókinni góðu. Á efstu þremur borðunum unnu þeir stigahærri þá stigalægri; Sigubjörn Björnsson vann varaformann TR eftir örugga taflmennsku hins fyrrnefnda en heldur óörugga taflmennsku hins síðarnefnda. Guðmundur Kjartansson hafði sigur gegn Júlíusi Friðjónssyni, eftir að Júlíus lék af sér peði í byrjuninni. Vignir Vatnar Stefánsson vann svo jafnaldra sinn Alexander Oliver Mai, með vandaðri taflmennsku í endataflinu. Pétur Pálmi Harðarson tefldi gegn alþjóðlega meistaranum Davíð Kjartanssyni á fjórða borði og lauk þeirri skák með skiptum hlut. Pétur Pálmi hækkar um 23 stig fyrir framistöðuna en hann tefldi mjög traust í mótinu. Af óvæntum úrslitum má nefna sigurskák Kristjáns Geirssonar (1709) gegn Haraldi Baldurssyni (1902) á fjórtánda borði og sigur Haraldar Haraldssonar (1962) gegn Braga Halldórssyni (2089) á sjöunda borði. Pistlaritari ætlaði að nota brandarann “Þetta er faraldur Haraldur” í þessu samhengi, en hætti svo snarlega við. Á sautjánda borði vann svo Kristján Dagur Jónsson (1591) sigur gegn Sigurjóni Þóri Friðþjófssyni (1812).

9-5

Davíð Kjartansson hefur vandaðan smekk. Mynd: Þórir Benediktsson.

9-4

Pétur Pálmi Harðarson hefur farið mikinn við skákborðin síðustu misseri. Mynd: Þórir Benediktsson.

Lokastaðan 

Eins og frægt er orðið varð Sigurbjörn Björnsson efstur í mótinu með 9 vinninga og er skákmeistari Reykjavíkur 2020. Í öðru sæti varð alþjóðlegi meistarinn Guðmundur Kjartansson með 7.5 vinning og í því þriðja varð Fide-meistarinn Vignir Vatnar Stefánsson með sjö vinninga. Fimm skákmenn enduðu með sex vinninga í mótinu, þeir Davíð Kjartansson, Benedikt Briem, Aron Þór Mai, Haraldur Haraldsson og Pétur Pálmi Harðarson. Sigurbjörn hækkar um 26 stig fyrir árangurinn, Pétur Pálmi um 27 stig og Benedikt Briem um heil 111 stig. Úrslit mótsins ásamt skákunum má að vana nálgast á chess-results en það var Þórir Benediktsson sem sá um innslátt skáka. Einnig minnum við á myndavef  mótsins. Myndirnar tóku Jon Olav Fivelstad, Þórir Benediktsson og Ríkharður Sveinsson. Skákdómarar mótsins voru þeir Ólafur Ásgrímsson og Jon Olav.

Jafntefliskóngurinn 

Jafntefliskóngar mótsins voru þeir Guðni Stefán Pétursson og Arnar Milutin Heiðarsson, með fimm jafntefli. Þess má geta að jafnteflisóngarnir gerðu að sjálfsögðu innbyrðis jafntefli í sinni skák.

Heppnissigurinn 

Heppnissigurinn varð í lokaumferðinni í skák Benedikts Briem og Þorvarðar Fannars Ólafssonar. Í þessari stöðu lék Þorvarður Ke1 og þá drap hvítur á h3 og peðið rann upp í borð. Sumir segja að heppni sé ekki til í skák, en það eru undantekningar á öllu!

9-8

Stigastökkvarinn 

Hinn 10 ára gamli Mikael Bjarki Heiðarsson hækkaði mest allra á stigum, eða um heil 116 stig. Næstur er áðurnefndur Benedikt Briem sem hækkar um 111 stig, Arnar Heiðarsson og Ingvar Wu Skarphéðinsson hækka um 66 stig og Alexander Oliver Mai hækkar um 58 stig. Allt eru þetta ungir strákar sem að elska að tefla skák. Þeir fá aldrei nóg! (hér vísar pistlaritari í rapparann Flóna, með örlitlum textabreytingum).

9-6

Verðlaunaafhending og hraðskákmót

35 skákmenn mættu til leiks á Hraðskákmót Reykjavíur miðvikudagskvöldið 5. febrúar. Í upphafi móts var verðlaunaafhending fyrir Skákþing Reykjavíkur hvar efstu menn tóku á móti verðlaunum sínum við hátíðlega athöfn. Hófst svo taflmennskan! Efstur manna varð Vignir Vatnar Stefánsson með 9.5 vinning, annar varð stórmeistarinn Helgi Áss Grétarsson með 9 vinninga og hlýtur hann nafnbótina hraðskákmeistari Reykjavíkur 2020. Sá þriðji varð Örn Leó Jóhannsson með 8.5 vinning. Úrslit hraðskákmótsins má nálgast á chess-results.

9-7

Takk fyrir lesturinn, og góðar stundir.