Sigurbjörn Björnsson er Skákmeistari öðlinga 2018Skákmeistari öðlinga 2018: Sigurbjörn J. Björnsson

Skákmeistari öðlinga 2018. Sigurbjörn J. Björnsson

Fide-meistarinn Sigurbjörn J. Björnsson (2278) sigraði á Skámóti öðlinga sem lauk á dögunum en hann hlaut 6,5 vinning í skákunum sjö. Þorvarður F. Ólafsson (2176) hafnaði í öðru sæti með 5,5 vinning og stórmeistari kvenna, Lenka Ptacnikova (2200), hlaut þriðja sætið með 5 vinninga.

20180502_194949

Fyrir lokaumferðina voru Sigurbjörn og Þorvarður efstir og jafnir með 5,5 vinning og gat enginn af keppendunum náð þeim að vinningum. Sigurbjörn stýrði hvítu mönnunum gegn Kristni J. Sigurþórssyni (1744) og þrátt fyrir mikinn stigamun varð úr mikil baráttuskák þar sem Kristinn hafði í fullu tré við Fide-meistarann framan af skák. Svo fór þó að styrkleikamunurinn sagði til sín og Sigurbjörn sigldi sigrinum í höfn í endatafli sem var hvítu mönnunum ofviða. Á sama tíma sá Þorvarður vart til sólar með hvítt gegn Lenku sem þjarmaði hart að Öðlingameistaranum 2012 og 2013. Lenka kláraði orrustuna af öryggi og því var ljóst að Þorvarður myndi ekki gera atlögu að titlinum að þessu sinni.

20180502_194940

Segja má að sigurinn hafi verið verðskuldaður hjá Sigurbirni sem tefldi heilt yfir af töluverðu öryggi í sínu fyrsta Öðlingamóti og verður nú 17. skákmaðurinn til að bera titil Öðlingameistara á þeim 26 árum sem mótið hefur farið fram. Alls tóku 37 keppendur þátt en nokkur stígandi hefur verið í mótinu undanfarin ár eftir fækkun keppenda árin á undan. Keppendum er þökkuð þátttakan og þá fær Þorvarður sérstakar þakkir fyrir milligöngu um glæsilegar veigar á lokakvöldinu. Mótahaldinu lýkur formlega næstkomandi miðvikudagskvöld með Hraðskákmóti öðlinga þar sem jafnframt fer fram verðlaunaafhending.

Að venju má nálgast öll úrslit ásamt skákunum á Chess-Results en það var Daði Ómarsson sem sló inn skákirnar hratt og örugglega.