Sigur og jafntefli í lokaumferð EM ungmenna



Geirþrúður Anna Guðmundsdóttir hélt áfram góðu gengi á Evrópumóti ungmenna er hún sigraði andstæðing sinn í níundu og síðustu umferð mótsins.  Geirþrúður hafði áður gert jafntefli í 8. umferð og endar því með 5 vinninga í 31. sæti en fyrirfram var hún nr. 62 í röðinni.  Sannarlega frábær árangur hjá Geirþrúði sem tapaði aðeins tveim skákum á mótinu.

Friðrik Þjálfi Stefánsson endaði mótið með jafntefli eftir tap í 8. umferð.  Friðrik hlaut 2,5 vinning og endaði í 121. sæti en þrjú töp í röð eftir fjögur jafntefli í fyrstu 5 umferðunum settu strik í reikninginn.  Engu að síður er þetta góður árangur hjá Friðriki á sínu fyrsta móti á erlendri grundu og kemur til með að nýtast vel í reynslubankanum.