Að loknum þremur umferðum í fyrsta mótinu af sex í Bikarsyrpu TR leiða Róbert Luu (1490) og Aron Þór Mai (1502) en báðir hafa þeir lagt alla andstæðinga sína. Í þriðju umferðinni vann Róbert Adam Omarsson (1156) en Aron hafði betur gegn Jóni Þór Lemery (1275).
Björn Magnússon (1000) og Guðmundur Agnar Bragason (1368) koma næstir með 2,5 vinning en síðan fylgir löng halarófa keppenda sem hafa 2 vinninga. Forysta Róberts og Arons þarf ekki að koma á óvart enda stigahæstu keppendur móstins sem báðir hafa verið á mikilli siglingu að undanförnu. Munu þeir tveir leiða saman hesta sína í fjórðu og næstsíðustu umferð og líklegt verður að teljast að þar fari ein af úrslitaviðureignum mótsins.
Þátttaka í mótinu er góð þar sem aldurs- og styrkleikabil eru breið og standa öll börnin sig með miklum sóma en sérstaklega er eftirtektarvert hversu fagmannlega þau bera sig að við skákborðin. Fjórða umferð hefst á morgun sunnudag kl. 10.30 og síðan verður blásið til leiks í fimmtu og síðustu umferðinni þegar tímamaskínan í TR höllinni dúndrar út tveimur slögum.
Sjáið myndir hér að neðan.