Róbert Lagerman kórónaður sigurvegari Öðlingamótsins



Það þurfti stórmeistrara kvenna, Lenku Ptáčníková, til að stöðva sigurgöngu Róberts Lagermans. Skák þeirra var stutt, 13 leikir, ég hef varla séð svona stutta skák síðan 1970-80 þegar stórmeistarajafntefli var meira reglan en undantekningin.

Lenka stöðvaði Róbert og kóróna stöðvaði mótið. Eftir að heilbrigðisyfirvöld tilkynntu samkomubann frá mánudegi næstkomandi sáum við okkur ekki fært að halda mótinu áfram. 5. umferðin varð og verður þess vegna síðasta umferð mótsins.

Sigurjón Haraldsson vann Haraldi Haraldsson á öðru borði í æsispennadi endatafli þar sem riddari Sigurjóns réði við öflug frípeð Haralds. Það færði Sigurjóni 3. sætið.

Róbert að tafli, gegn Haraldi Baldurssyni

Róbert að tafli, gegn Haraldi Baldurssyni

 

Efstu 3. sætin verða þá:

  1. Róbert Lagerman 4,5 vinningar
  2. Lenka Ptáčníková 4 vinningar
  3. Sigurjón Haraldsson 4 vinningar

Lenka  er hærri á oddastígum.

 

Í 4. til 5. eru Haraldur Baldursson og Óskar Maggason. Haraldur er yfirleitt hátt uppi í þessum mótum og þetta skiptið er engin undantekning. Óskar hefur staðið sig frábærlega – og í þessari umferð lagði hann Halldór Garðarsson. 

Eina uppákoman í síðustu umferð var að Oddgeir Ottesen svaf yfir sig og mætti 10 mínutur eftir að skákin var töpuð. Ekki sérlega skemmtilegt hvorki fyrir hann né andstæðinginn. En þegar fréttir sjónvarpsins eru svo leiðinlegar að Óli lokbrá kíki í heimsókn þá er fátt hægt að gera.

Skákstjóri miðvikudagskvöldsins situr nú í heimssóttkví. Hann var svo vitlaus að mæta í hópleikfími, og einn úr hópnum varð veikur daginn á eftir. Skákstjórinn er ekki veikur og getur þess vegna ekki hafa smitað keppendur. Gott er það.

Við Ólafur Ásgrímsson þökkum fyrir skemmtilegt mót – aðeins í styttra lagið í þetta skipti – en það kemur dagur eftir þennann dag!

Lokastöðuna og öll úrslit mótsins má nálgast á chess-results.