Reykjavíkurmót grunnskólasveita: Keppni 4.-7. og 8.-10. bekkja fer fram mánudaginn 19. febrúar



Reykjavíkurmót-grunnskóla-2017

Reykjavíkurmót grunnskólasveita heldur áfram í húsnæði TR að Faxafeni 12 mánudaginn 19. febrúar kl. 16.30 með keppni 4.-7. bekkja og kl. 19.30 með keppni 8.-10. bekkja. Mótið er sem fyrr samstarfsverkefni Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar og Taflfélags Reykjavíkur. Mótinu verður skipt í þrennt að þessu sinni; 1.-3. bekkur, 4.-7. bekkur og 8.-10. bekkur.

Tefldar verða 7 umferðir með umhugsunartímanum 5 mínútur fyrir hverja skák og bætast 3 sekúndur við eftir hvern leik (5+3). Allir grunnskólar Reykjavíkurborgar eru hvattir til þess að senda skáksveitir í mótið. Engar takmarkanir eru á fjölda skáksveita og er skáksveitum hvers skóla styrkleikaraðað með bókstöfum (a-sveit, b-sveit, c-sveit og svo framvegis). Í hverri skáksveit tefla 4 keppendur og má hver sveit hafa 0-2 varamenn. Keppanda er heimilt að tefla í eldri flokki en aldur hans segir til um, en þó má einungis tefla í einum flokki (sem dæmi þá má keppandi í 3.bekk tefla í flokki 4.-7.bekkjar, en hann getur þá ekki teflt í flokki 1.-3.bekkjar). Mikilvægt er að liðsstjóri fylgi liðum hvers skóla og er æskilegt að hver liðsstjóri stýri ekki fleiri en þremur liðum.

Mótshaldarar vilja ítreka mikilvægi þess að bæði liðsstjórar og keppendur mæti á mótsstað eigi síðar en 15 mínútum fyrir auglýst upphaf móts til að unnt sé að hefja mótið á tilsettum tíma.

 

Dagskrá:

  • Mánudagur 19.febrúar kl.16:30-19:00; 4.-7.bekkur.
  • Mánudagur 19.febrúar kl.19:30-22:00; 8.-10.bekkur.

Veitt verða verðlaun fyrir þrjú efstu sætin í hverjum flokki. Einnig fær efsta stúlknasveit hvers flokks verðlaun.

Skráning fer fram í gegnum skráningarform sem finna má í gula kassanum á skak.is. Skráningu lýkur sunnudaginn 18.febrúar klukkan 21:00. Ekki verður hægt að skrá lið á mótsstað. Hér má fylgjast með skráningunni.