Pistill fjórðu umferðar Skákþingsins



Baráttan harðnar á efstu borðum. Guðmundur Kjartansson vann snemma peð af Vigni Vatnari Stefánssyni á fyrsta borði. Svo gerðist lítið í langan tíma, en að lokum tókst Guðmundi að svæfa Vigni og Vignir lék af sér manni.

Sigurbjörn Björnsson blés til sóknar á öðru borði, og smám saman varð Aron Þór Maí að gefa eftir og játa sig sigraðan. Mikael Jóhann Karlsson fékk erfiða stöðu á móti Davíð Kjartanssyni, og Davíð var ekki í vandræðum með að innbyrða sigurinn.

Á fjórðu borði náði Júlíus Friðjónsson snemma peði af Stephani Briem. Stephan sat uppi með tapaða stöðu en lagði endalausar gildrur fyrir Júlíusi og skákin drógst fram yfir miðnætti áður en Stephan varð að kasta handklæðinu.

Svo á fimmta borði var ein af þeim mest spennadi skákum kvöldins tefld: Þorvarður Ólafsson reyndi Grünfeldsvörn á móti Ólafi Bjarnasyni. Þorvarður “át” eitrað peð á a2 og Ólafur yfirspilaði síðan
Þorvarð. Þegar staðan hjá svörtum leit út fyrir að vera orðin koltöpuð dróg Þorvarður fram síðasta vopnið og fórnaði hrók til að hrekja konung hvíts úr víginu. Það tókst með eindæmum vel og hann bjargaði skákinni í jafntefli. Skákin var í beinni, og við mælum með að þið skoðið hana.

Önnur úrslit kvöldsins voru að mestu eftir bókinni. Undantekningin var að hinn stigalausi Oddur Sigurðarson vann lærdómsríkt peðsendatafl á móti Herði Jónassyni. Peðsendatöflin segja oft til um styrkleika andstæðinganna – og það er alltaf spennandi að fylgast með þeim.

Enn og aftur stóðu ungu strákarnir úr Breiðablík sig vel – Mikael Bjarki Heiðarsson var með ýfið betra í drottningaendatafli á móti Jóni Þ. Helgasyni þó það munaði 600 skákstigum eða svo á þeim. Skákin leystist upp í jafntefli. Svipað var uppi á teningnum í skák Arnars Loga Kjartanssonar og Harðar Garðarssonar. Hörður var lengi vel með tapaða stöðu en bjargaði jafntefli með herkjum. Gaman að sjá einbeitinguna hjá ungi kynslóðinni!

Birnukaffi var á sínum stað – alltaf heitt á könnunni og gott andrúmsloft. Þakkir fær líka Kristján Örn Elíasson fyrir alla hjálp í okkar frumraun með beinar útsendinga.