Pistill annarrar umferðar Skákþings Reykjavíkur



 

Miðvikudagskvöldið 8. janúar fór fram önnur umferð Skákþings Reykjavíkur. Eftir hana eru átta skákmenn efstir og jafnir með fullt hús, tvo vinninga af tveimur. Úrslitin voru eftir bókinni góðu á efstu borðum ef frá er talið jafntefli í skák Alexanders Olivers Mai (1958) og Davíðs Kjartanssonar (2356). Nokkur önnur dæmi voru um jafntefli hjá yngri kynslóðinni gegn reyndari mönnum; Arnar Heiðarsson (1880) hélt jöfnu gegn Þorvarði Ólafssyni (2188), Anna Katarína Thoroddsen (1076) gegn Sigurjóni Þóri Friðþjófssyni (1812) og Mikael Bjarki Heiðarsson (1043) gegn Sigurði Frey Jónatanssyni (1651). Ólafur Bjarnason (1815) gerði sér svo lítið fyrir og lagði Harald Harladsson (1962) af velli með hvítu mönnunum. 

Í næstu umferð munu allir þeir sem hafa tvo vinninga mætast á efstu fjórum borðunum. Þess má geta að á sex efstu borðunum í sal TR fara skákirnar beinleiðis út í vefheima hvar áhugasamir geta fylgst með töktum meistaranna, og sjá nákvæmlega hvenær mistök eiga sér stað, leikir sem færu aldrei framhjá þeim sem heima sitja. 

Pörun liggur fyrir í þriðju umferð. Á fyrsta borði fær vararitari Skáksambandsins að spreyta sig gegn Guðmundi Kjartanssyni. Benedikt Briem teflir við Sigurbjörn Björnsson á öðru borði, Vignir Vatnar og Pétur Pálmi Harðarson tefla saman á því þriðja, og á fjórða borði leiða saman hesta sína Aron Þór Mai og Ólafur Bjarnason. Allar upplýsingar um úrslit og pörun má nálgast á chess-results

Þriðja umferð verður næstkomandi sunnudag klukkan 13, í félagsheimili TR, Faxafeni 12. Birnukaffi verður á sínum stað að vana, hvort sem mönnum þyrstir í koffín, sykur, eða bara hið hreina íslenska vatn.