Páskeggjasyrpa Nóa Síríus og TR hófst í dag!



Hin vinsæla og skemmtilega Páskaeggjasyrpa Nóa Síríus og Taflfélags Reykjavíkur hófst í dag þegar fyrsta mótið af þremur fór fram.  Líkt og undanfarin ár er keppt í tveimur aldursflokkum, 6 umferðir með 10 mínútna umhugsunartíma.

Í yngri flokki, (þriðju bekkingar og yngri) voru yfir 20 krakkar mættir til leiks og voru margir ekki háir í loftinu.  En allir kunnu þeir sitthvað fyrir sér í skáklistinni og úr varð æsispennandi mót.  Gunnar Erik Guðmundsson kom sá og sigraði með fullu húsi vinninga.  Frábær árangur hjá honum og greinilegt að hann ætlar sér stóra hluti í syrpunni þetta árið og er skráður í öll þrjú mót hennar.  Batel Mirion kom skemmtilega á óvart og náði öðru sætinu með 4 1/2 vinninga.  Stelpan tefldi fantavel og var vel að sætinu komin.  Annað sætið tryggði henni einnig stúlknaverðlaunin í flokknum.  Adam Omarsson sem mætir á flest mót og æfingar sem eru í boði hafnaði í þriðja sæti.  Hann krækti líkt og Batel í hálfan fimmta vinning en var örlítið neðar á stigum.

Mot1-43

Batel Mirion, Gunnar Erik Guðmundsson og Adam Ómarsson kampakát með árangurinn.

Í eldri flokki voru yfir 30 keppendur mættir til leiks og meðal þeirra voru margir sjóðheitir eftir taflmennsku á Íslandsmóti skákfélaga sem fór fram um helgina.  Baráttan um sigurinn var ekki síður spennandi en í yngri flokknum, en að lokum var það Bárður Örn Birkisson sem stóð uppi sem sigurvegari.  Hann hlaut 5 1/2 vinninga úr skákunum sex og leyfði einungis jafntefli í viðureign við liðsfélaga sinn úr TR Aron Þór Mai.  Í öðru sæti hafnaði nýbakaður Norðurlandameistarinn í skólaskák Óskar Víkingur Davíðsson með 4 1/2 vinninga. Aron Þór Mai og Stephan Briem komu svo jafnir í mark með 4 vinninga og þar tók Aron Þór 3. sætið á stigum.  Freyja Birkisdóttir hlaut stúlknaverðlaunin en hún nældi í 2 vinninga og var sjónarmun ofar á stigum en Elísabet Xiang Sveinbjörnsdóttir sem einnig hlaut tvo vinninga.

Mot1-44

Óskar Víkingur Davíðsson, Bárður Örn Birkisson, Freyja Birkisdóttir og Aron Þór Mai.

Líkt og alltaf þá var frábær stemming í skákhöllinni og mótið hin besta skemmtun.  Næsta mót í syrpunni fer fram næstkomandi sunnudag, og þá er lag fyrir marga að gera strandhögg í syrpunni, því flestir af sterkustu keppendunum í dag munu þá sitja að tafli á alþjóðlega Reykjavíkurskákmótinu sem hefst í næstu viku í Hörpu.

Taflfélag Reykjavíkur vill þakka öllum sem tóku þátt, óskar sigurvegurunum til hamingju og við sjáumst að viku liðinni!

Úrslit í yngri flokki

Úrslit í eldri flokki