Páskaeggjasyrpa Nóa Síríus og Taflfélags Reykjavíkur hófst á sunnudag en þá fór fram fyrsta mótið af þremur í syrpunni. Þessi mótaröð hóf göngu sína í fyrra og fékk strax frábærar viðtökur. Líkt og í fyrra er keppt er í tveimur flokkum sex umferðir með 10 mínútna umhugsunartíma. Í yngri flokk etja kappi krakkar sem fæddir eru 2006 eða síðar en í eldri flokk krakkar fæddir 1999-2005.
Óhætt er að segja að keppni í báðum flokkum hafi verið afar jöfn og skemmtileg. Í þeim yngri fóru þau Vignir Sigur Skúlason og Freyja Birkisdóttir úr Taflfélagi Reykjavíkur mikinn og unnu bæði fyrstu fjórar skákir sínar. Þau mættust svo í fimmtu umferð og þá rimmu sigraði Vignir Sigur. Hann gerði síðan engin mistök í lokaumferðinni og sigraði með fullu húsi. Annar varð Guðni Viðar Friðriksson, einnig úr Taflfélagi Reykjavíkur með fimm vinninga. Beið hann einungis lægri hlut í viðureign sinni við Vignir Sigur.
Fimm keppendur komu næstir með 4 vinninga og þar hreppti Freyja Birkisdóttir þriðja sætið á stigum.
Nokkrir mjög ungir keppendur tóku þátt og sum hver að taka þátt í sínu fyrsta móti. Yngstur þeirra var Bjartur Þórisson sem fæddur er 2009. Hann stóð sig mjög vel og hlaut tvo vinninga.
Í eldri flokk var baráttan ekki síðri og dramatíkin öllu meiri í lokin. Marga sterka skákmenn vantaði í þennan flokk þar sem þeir taka nú þátt í Reykjavik Open í Hörpunni. Alexander Mai tók snemma forystu og fyrir lokaumferðina var hann með fullt hús, hafði unnið allar 5 skákir sínar og hafði vinningsforskot. Í lokaumferðinni mætti hann nafna sínum og liðsfélaga úr TR Alexander Má Bjarnþórssyni og úr varð hörkuskák. Svo fór að lokum að Alexander Már stöðvaði sigurgöngu nafna síns og skaust við það upp í fyrsta sætið á stigum. Katla Torfadóttir sem kom ásamt nokkrum öðrum sterkum keppendum frá Hellu nýtti sér einnig tækifærið og skaust upp í annað sætið með góðum sigri á Heiðar Óla Guðmundssyni einnig frá Hellu í lokaumferðinni.
Í lokin voru veitt veðlaun, medalíur og gómsæt páskaegg frá Nóa Síríus og einnig var dregin út forláta DGT skákklukka í happadrætti. Hún kom í hlut Ásgeirs Braga Baldurssonar sem var hinn ánægðasti með gripinn.
Stemmingin var frábær á mótinu eins og ætíð í Páskaeggjasyrpunni og verður örugglega ekki síðri þegar annað mótið fer fram næstkomandi sunnudag. Verið velkomin!
- Myndir