Keppt var í fyrsta skipti um Ríkharðsbikarinn á Jólahraðskákmóti Taflfélags Reykjavíkur sem eftirleiðis verður haldið 28. desember og tileinkað Ríkharði Sveinssyni, Ríkharðsmótið!
Mótið var einstaklega vel sótt, 98 keppendur mættu til leiks og hefði hæglega verið hægt að brjóta 100 keppenda múrinn en einhverjir forfölluðust því miður. Góður andi og keppnisgleði einkenndi daginn en þó var hart barist.
Alls voru tefldar 11 umferðir með tímamörkunum 3+2. Heilir 17 titilhafar mættu til leiks og stigahæstur keppenda var stórmeistarinn Jóhann Hjartarson. Mótið hófst með skemmtilegri pörun en Jóhann var paraður gegn Sveini Inga Sveinssyni, bróður Ríkharðs. Pörunin var algjör tilviljun og var eins og hér hefði verið einhverskonar “Rikka-trikk” á ferðinni!
Halldór sonur Ríkharðs lék fyrsta leikinn fyrir Jóhann gegn Sveini. Jóhann hafði lengst af yfirhöndina eins og við var að búast en Sveinn er hættulegur hraðskákmaður þegar hann fær sín færi, eins og Ríkharður bróðir hans var.
Jóhann lék af sér í síðasta leik með 27.Rd3? og Sveinn nýtti færið. 27…d4! 28.Dg3 Hxf1 29.Kxf1 Dd1+ 30.Re1 Re4 og þessi riddari skákar næst á d2 og riddarinn á e1 fellur bótalaust! Skemmtileg úrslit í tilefni dagsins!
Stórmeistarinn Þröstur Þórhallsson fór sem stormsveipur í gegnum fyrstu umferðirnar og hafði Þröstur fullt hús eftir 6 umferðir.
Í sjöundu umferð var það loks Örn Leó Jóhannsson sem náði að stoppa Þröst með góðum seiglusigri. Örn og Óliver Aron Jóhannesson jöfnuðu Þröst á toppnum með 6 af 7. Sjö skákmenn komu í humátt hálfum vinningi á eftir með 5,5 vinning og ljóst að spennan yrði mikil. Pakkinn hélt áfram að þéttast, sex voru jafnir eftir 8 umferðir en urðu aftur þrír eftir níu umferðir, Örn Leó, Birkir Ísak Jóhannsson og nú Sigurbjörn Björnsson.
Eftir jafntefli hjá Birki og Erni Leó bættist Dagur Ragnarsson í hópinn og voru þeir þrír efstir fyrir lokaumferðina. Í lokaumferðinni mætti Örn Leó sterkur til leiks og lagði Dag að velli með hvítu. Jóhann kláraði endurkomu sína með því að leggja Birki að velli og Sigurbjörn laumaði sér á pall með því að máta Björn Þorfinnsson.
60…Ke8 ætti að vinna á svart en Björn var sleginn skákblindu í tímahrakinu og lék 60…b4?? og varð mát 61.Hd8#
Skák Arnar gegn Degi var góð og lykilaugnablikið var hér:
27…Hhd8? var leikið í erfiðri stöðu en eftir 28.Bc7 er ljóst að svartur tapar liði og eftirleikurinn reyndist auðveldur hjá Erni.
Glæsilegt hjá Erni Leó en hann tapaði aðeins einni skák allt mótið, í fjórðu umferð gegn Birni Þorfinnssyni. Skrifast það á vafasamt byrjanaval! Titilhafarnir röðuðu sér flestir í efstu sætin en þeir Birkir Ísak og Ingvar Wu Skarphéðinsson sýndu styrleika sinn í hraðskák! Ingvar hækkar um 91 hraðskákstig. Gaman var að sjá stigabætingar hjá landsliðskonum en Lenka Ptacnikova hækkaði um 83 hraðskákstig og Iðunn Helgadóttir um 159 stig! Greinilegt að æfingin kvöldinu áður á Íslandsmóti kvenna í hraðskák hafi skilað sér! Af þessu mætti jafnvel draga þann lærdóm að keppnisform skipti máli þegar kemur að skák!
Milli skák og í hléi eftir 6. umferð gátu keppendur gætt sér á veitingum sem voru glæsilegar og ber sem endranær að þakka Birnu Halldórsdóttur fyrir sitt framlag í þeim málum og eins góðum velvildarmönnum sem gáfu til veitinganna!
Taflfélag Reykjavíkur þakkar öllum sem komu að mótinu og eins keppendum, margir hverjir sem settust við taflborðið í fyrsta skipti í fleiri ár til heiðurs Ríkharði. Menn tefldu upp á ánægjuna, samveruna og ástinni á þessum fallega leik sem heillar okkur öll. Bjartur og Veröld fær þakkir fyrir veglegar bókagjafir sem voru til verðlauna. Björn Þorfinnsson fær einnig þakkir fyrir hlý orð í ræðu tileinkuð Ríkharði. Þessi tími hentar vel til mótahalds og mega menn fara að hlakka til Ríkharðsmótsins að ári!