Oliver efstur á Haustmótinu



Í gærkvöldi var tefld 3.umferð í Haustmóti Taflfélags Reykjavíkur. Annir skákmanna voru miklar þennan sunnudaginn og voru frestaðar skákir óvenju margar. Þeir skákmenn sem settust að tafli í Faxafeninu í dag áttu ekki síður annríkt því margar skákirnar voru æsispennandi og flækjustig æði hátt.

Í opnum flokki áttu þeir stigahærri í mesta basli með þá stigalægri. Björn Magnússon, sem fyrir umferðina hafði fullt hús, stýrði hvítu mönnunum af miklu öryggi til jafnteflis gegn Alexander Oliver Mai. Þeir leiða nú opna flokkinn með 2,5 vinning ásamt Guðmundi Agnari Bragasyni. Guðmundur Agnar lagði Hjálmar Sigurvaldason á snotran hátt og nýtti til þess sitt sterka taktíska auga. Þá gerði Arnar Milutin Heiðarsson sér lítið fyrir og hélt jöfnu gegn Halldóri Atla Kristjánssyni.

Í C-flokki tapaði Aron Þór Mai sinni fyrstu skák er hann varð fyrir barðinu á Ólafi Guðmarssyni. Ólafur hafði tapað fyrstu tveimur skákum sínum og því kærkominn vinningur fyrir hann. Róbert Luu tefli vel framan af gegn Óskari Víkingi Davíðssyni og vann peð snemma tafls. Óskar Víkingur beið átekta með riddara sinn í árásarstöðu í von um að gera Róberti grikk. Það herbragð heppnaðist því riddarinn setti upp gaffal sem gaf Óskari Víkingi skiptamun. Það dugði honum til að landa sigri í þessari baráttuskák tveggja upprennandi skákmeistara landsins. Gauti Páll Jónsson er sá eini með fullt hús í C-flokki en skák hans og Héðins Briem í 3.umferð var frestað vegna anna Gauta Páls við skákborðið norðan heiða.

Í B-flokki mættust TR-bræðurnir Bárður Örn Birkisson og Vignir Vatnar Stefánsson í rólegri rimmu sem endaði með jafntefli. Það var aftur á móti ekkert rólegt við viðureign barnalæknisins Ólafs Gísla Jónssonar og Snorra Þórs Sigurðssonar, ekki nema þá teflendur sjálfir. Líkt og endra nær blés Ólafur Gísli til sóknar og áttu áhorfendur í mesta basli með að átta sig á hver leiðarlok hennar yrðu. Eftir miklar kúnstir á báða bóga þráskákaði Ólafur Gísli og jafntefli varð niðurstaðan. Þá gerði Jóhann H. Ragnarsson vel er hann lagði Björn Hólm Birkisson í hörkuskák. Vert er að geta þess að Jóhann hefur í þessu móti lagt að velli báða tvíburana óárennilegu. Guðlaug Þorsteinsdóttir er eini keppandi B-flokks sem hefur fullt hús, en skák hennar og Siguringa Sigurjónssonar í 3.umferð var frestað.

Í A-flokki sótti Örn Leó Jóhannsson að bakstæðu peði hins eitilharða Benedikts Jónassonar. Benedikt lærði allt sem hægt er að læra um bakstæð peð á gamla Grensásveginum og var því ekki í miklum vandræðum með að greiða úr flækjunni. Skákin endaði í hróksendatafli sem að lokum leystist upp í jafntefli. Lenka Ptacnikova tefldi af krafti gegn Björgvin Víglundssyni sem varð að gefa drottningu fyrir hrók og mann. Ekki var með öllu ljóst hvort það dygði til sigurs þrátt fyrir að Björgvin hefði í lokinn aðeins hrók fyrir drottningu Lenku. Björgvin reyndi hvað hann gat að setja upp órjúfanlegt virki en Lenka var vandanum vaxinn og vann skákina. Skák umferðarinnar var án efa skák Oliver Arons Jóhannessonar og Gylfa Þórhallssonar. Svo virtist sem hinn ósigraði Oliver Aron ætlaði að leggja gamla manninn að velli en líkt og alkunna er þá kallar Gylfi ekki allt ömmu sína. Enda væri það til að æra óstöðugan að bera slíka nafngift upp á óskabarn Grafarvogs. Peði undir báru varnartilburðir Gylfa keim af norðlenskri vetrarhörku sem íbúar Grafarvogs hafa litla reynslu af. Í tímahrakinu kom sama staðan upp fimm sinnum en hvorugur þeirra krafðist þó jafnteflis. Í lokinn hafði Oliver Aron riddara og peð gegn biskupi og peði Gylfa. Oliver Aron lék 93. og síðasta leik skákarinnar og bauð Gylfa um leið jafntefli, sem Gylfi þáði með þökkum. Andartaki seinna leiddi sá gamli þann unga í skilningu um hvernig hægt hefði verið að vinna skákina með því að leika riddara sínum á annan reit í 93. leik. Vonandi góð lexía fyrir Oliver Aron sem stefnir nú hraðbyri að titli alþjóðlegs meistara. Oliver Aron leiðir A-flokkinn með 2,5 vinning, en alþjóðlegu meistararnir Bragi Þorfinnsson og Einar Hjalti Jensson eiga eftir að tefla sínar skákir i 3.umferð og geta með sigri jafnað Oliver Aron að vinningum.

4.umferð Haustmótsins fer fram miðvikudaginn 30.september að loknu Íslandsmóti Skákfélaga. Áhorfendur eru hvattir til að leggja leið sína í höfuðstöðvar Taflfélags Reykjavíkur og bera augum framúrskarandi fínar fléttur skákmeistaranna sem etja kappi í Haustmótinu. Sem fyrr eru allir brúsar fullir af kaffi og bakkelsi á bökkum fyrir gesti.