Oliver Aron sigraði á Jólahraðskákmóti TR



Það var góð stemming á Jólahraðskákmóti Taflfélags Reykjavíkur sem fram fór í gærkvöldi.  Tæplega 30 keppendur voru mættir til leiks og allir í fínu formi eftir jólaát undanfarinna daga.  Baráttan stóð framan af milli stigahæstu keppendanna, en þó vakti vaskleg framganga “svíans” Guðmundar Sverris Þór (2051) og Kristófers Ómarssonar (1786) athygli.

Oliver Aron Jóhannesson var þó greinilega í bestu formi keppenda og sigraði að lokum með nokkrum yfirburðum, hlaut 12.5 vinninga úr fjórtán skákum. Í öðru til þriðja sæti með 10 vinninga komu svo Lenka Ptácniková og Örn Leó Jóhannsson sem átti góðan endasprett.

 

Ánægjulegt var að sjá árangur yngstu keppendanna, en TR-ingarnir Vignir Vatnar Stefánsson og Mikhailo Kravchuk sem báðir taka þátt í Norðurlandamótinu sem fram fer í Færeyjum í febrúar komu í mark í 7.-10. sæti með 8.5 vinninga ásamt Kristófer Ómarssyni og Bárði Birkissyni.

Freyja Birkisdóttir (8 ára) sýndi einnig enn á ný hversu efnileg hún er og hlaut 6.5 vinning og vann meðal annars örugglega Björgvin Krisbergsson 1.5-0.5

Úrslit:

Taflfélag Reykjavíkur þakkar fyrir sig og við sjáumst á nýju ári þegar mót mótanna, Skákþing Reykjavíkur hefst sunnudaginn 4. janúar.