Mettþáttaka var á Þriðjudagsmóti TR þann 15. mars, en 30 manns mættu til leiks. Toppurinn var þéttur, en fyrir lokaumferðina voru átta skákmenn með þrjá vinninga og tveir skákmenn með tvo vinninga, þeir Daði Ómarsson og Ólafur B. Þórsson. Ólafur vann þá skák og tryggði sér því fyrsta sætið. Fimm skákmenn hlutu fjóra vinninga, Daði, Björgvin Ívarsson Schram, Gauti Páll Jónsson, Brynjar Bjarkason og Kristófer Orri Guðmundsson. Það var mjög lítið um jafntefli í mótinu, barist til síðasta blóðdropa! Eins og undanfarna þriðjudaga mættu nýliðar til leiks, og eru þeir oft stór hluti þáttakenda, í bland við reyndari skákmenn. Gaman að því!
Ólafur gaf Hjálmari Sigurvaldasyni bókaverðlaun sín í mótinu, en Hjálmar hefur margoft reynst stigahærri mönnum erfiður ljár í þúfu. Verðlaun fyrir bestan árangur miðað við stig fékk Guðlaugur Gauti Þorgilsson en hann er stigalaus. Það gæti þó breyst taki hann þátt í næsta móti, en það tekur oft ekki nema tvö mót til að menn komi inn á stigalista.
Úrslit og staða mótsins: chess-results
Næsta Þriðjudagsmót verður 22. mars, klukkan 19:30 stundvíslega í félagsheimili TR, Faxafeni 12. Telfdar eru fimm umferðir með tímamörkunum 10 mín og 5 sekúndna viðbót fyrir hvern leik. Mótinu lýkur yfirleitt um eða upp úr 22:00.
Myndin er af vefsíðu Vinaskákfélagsins.