Flautað var til leiks í Skákmóti öðlinga 2019 í húsnæði Taflfélags Reykjavíkur í gærkveld en mótið fór fyrst fram 1992 fyrir tilstuðlan Ólafs S. Ásgrímssonar sem átt hefur veg og vanda að mótahaldinu allar götur síðan. Í ár taka þátt 25 keppendur og er sigurvegari mótanna 2012 og 2013, Þorvarður F. Ólafsson (2199), þeirra stigahæstur en stórmeistari kvenna, Lenka Ptacnikova (2187), er næst í röðinni og þá fylgir Jóhann Ingvason (2175) í humátt. Umferðir í Öðlingamótinu fara fram einu sinni í viku, á miðvikudagskvöldum, og hefjast þær allar kl. 19.30. Lokaumferðin fer fram 27. mars og þann 3. apríl verður Hraðskákmót öðlinga ásamt verðlaunaafhendingu fyrir Öðlingamótið. Skákstjórn er í höndum fyrrnefnds Ólafs (895 5860) og skal öllum erindum sem varða mótið beint til hans eða Þóris Benediktssonar (867 3109).
Í fyrstu umferð lagði Þorvarður Sigurjón Haraldsson (1824) á efsta borði en á öðru borði nældi Kjartan Ingvarsson (1812) í jafntefli gegn Lenku. Að öðru leiti má segja að úrslit hafi verið eftir bókinni góðu. Í annarri umferð mætir Þorvarður gamla brýninu Þór Valtýssyni (1901) og þá eigast við Jóhann Ingvason og Kristján Halldórsson (1854) en pörun í heild sinni ásamt úrslitum má finna á Chess-Results.