Nokkur orð um mótið í Mysliborz



Þar sem nú er liðin 1/3 af dvöl okkar hér í Póllandi er e.t.v. tímabært að koma með fyrstu athugasemdir mínar um mótið í Mysliborz.

 

Mótið var töluvert sterkara á pappírunum þegar við skráðum okkur fyrst til leiks og munar þar mestu um eina 5-6 pólska IM og FM með 2300+, en þeir afboðuðu sig allir þegar Hraðskákmót Póllands var sett á síðasta dag þessa móts (eða það segir skipuleggjandi mótsins a.m.k).

 

Þess utan átti að tefla mótið í tveimur flokkum, A- og B- flokki.  Stigahæstu strákarnir þrír hefðu allir teflt í A-flokki, og hefðu þá í nær hverri einustu skák teflt við sterka andstæðinga, sem hefði þýtt meiri og betri reynslu.

 

Einar og Aron hefðu svo teflt í B-flokki og fengið a.m.k. nokkra álitlega mótherja, auk þess að fá reynsluna að tefla um sigurinn á mótinu og þar með sigurinn í hverri einustu skák (en þetta atriði með sigurviljann er eitthvað sem þeir verða að halda í stöðugri æfingu þar sem þeir tefla á 4. borði í skólasveitinni og gerð er krafa um sigur í nær hverri einustu skák.).

 

Mótið er að sönnu aðeins veikara nú og fækkar því skákunum sem við fáum við sterka andstæðinga.  Á móti kemur að mótið er ekki jafn erfitt, menn ná að hvílast meira og e.t.v. er slíkt engu síðri undirbúningur fyrir Evrópumótið í Búlgaríu.

 

Það eru a.m.k. allir sáttir ennþá og allir að reyna sitt besta.

 

Annað atriði sem við höfðum talað um fyrir komuna hingað var að tefla allar skákir í botn.  E.t.v. má segja að Matti hafi misst hálfan vinning út af þessu í gær, en reynslan sem hann fær á móti vegur það fyllilega upp. 

Mín tilfinning er alla veganna sú að menn séu enn ungir og eigi að einbeita sér að því að öðlast reynslu á öllum sviðum taflsins.  Ég held líka að þessi ódrepandi sigurvilji sé eitthvað sem Íslendingar eigi nokkuð auðvelt með að öðlast (við höfum vissulega marga galla líka, en tölum ekki um það hér).

 

Aftur á móti sér maður þess merki að margir skákmenn frá Austur-Evrópu nálgast þetta með nokkrum öðrum hætti.  Sem dæmi má nefna að í gær bauð Svetlana Matta upp á þráleik snemma tafls og í dag var hún með hvítt á móti GM Voloshin.  Þar lokaðist taflið og samið eftir 18 leiki.

 

Það er augljóst að sumir taka ekki of mikla áhættu og það er svo sem eigið val manna, enda um fullorðið fólk að ræða.

 

Torfi Leósson