Matthías Björgvin Kjartansson sigraði örugglega á fimmta og síðasta móti Bikarsyrpu TR þennan veturinn. Matthías gerði sér lítið fyrir og vann alla sína andstæðinga og fékk því fullt hús vinninga eða 7 talsins. Jafnir í 2.-5. sæti með 5 vinninga voru bræðurnir Jósef og Adam Omarssynir, ásamt þeim Soffíu Arndísi Berndsen og Arnari Frey Orrasyni. Eftir útreikning oddastiga hlaut Jósef annað sætið og Adam það þriðja. Soffía hlaut stúlknaverðlaunin að þessu sinni. Heildarúrslit má sjá á Chess-Results.
Árangur Matthíasar er eftirtektarverður en þetta er í annað sinn sem sigur vinnst með fullu húsi í móti Bikarsyrpunnar. Fyrir frammistöðuna hækkar Matthías um 112 Elo-stig og er augljóslega á fljúgandi siglingu um þessar mundir en þess má geta að hann hækkaði einnig duglega á fjórða mótinu. Ljóst má vera að lokinni Bikarsyrpunni þetta tímabilið að mikil endurnýjun hefur átt sér stað á meðal ungra iðkenda í skákinni sem er vel. Sá sem þetta ritar og hefur verið viðloðandi mótin um alllangt skeið getur staðfest að allir þeir sem þátt tóku í mótunum í vetur hafa bætt sig jafnt og þétt, ekki síst þeir sem komnir eru með mestu reynsluna. Æfingin skapar meistarann!
Í lok móts voru einnig veitt verðlaun fyrir besta samanlagðan árangur í Bikarsyrpu vetrarins og er sá háttur hafður á að fjögur mót að hámarki gilda. Sá keppandi sem fær flesta vinninga hlýtur að launum veglegan farandbikar og inneign hjá Spilavinum, nágrönnum Taflfélags Reykjavíkur, en það var Rayan Sharifa (21,5v) sem varð efstur allra í vetur. Að auki fá þrír efstu meðlimir TR ókeypis einkatíma hjá félaginu en þar varð efstur áðurnefndur Rayan, önnur varð Iðunn Helgadóttir (20v) og þriðji varð Bjartur Þórisson (18,5v).
Taflfélag Reykjavíkur þakkar keppendum og forráðamönnum fyrir þátttökuna í vetur og hlakkar til að hitta ykkur öll aftur!
Þórir Benediktsson