Kristján Örn Elíasson sigrar á sterku Grand Prix móti



 

Hraðskákmeistari Taflfélags Reykjavíkur, Kristján Örn Elíasson, sýndi mikið harðfylgi þegar hann sigraði á sterku Grand Prix móti í Faxafeninu í gærkvöldi, fimmtudagskvöld. Kristján Örn náði að skjóta aftur fyrir sig m.a.alþjóðlega meistaranum Arnari E.Gunnarssyni sem hefur reynst nær ósigrandi í annari Grand Prix mótaröðinni og hinum þrautreynda og margkrýnda hraðskákmeistara Braga Halldórssyni. Kristján Örn hlaut 7½ vinning af 9 mögulegum. Jafnir í 2. – 4. sæti með 7 vinninga urðu Arnar E. Gunnarsson, Bragi Halldórsson og Helgi Brynjarsson. Dagur Andri hinn efnilegi skákmeistari úr Fjölni var lengi vel í efstu sætum en gaf eftir á lokasprettinum og varð að þessu sinni að láta sér lynda 5. sætið með 6 vinninga af 9.

 

Óttar Felix Hauksson sá um skákstjórn og afhenti Kristjáni Grand Prix könnuna góðu í mótslok. Næsta mót verður haldið að viku liðinni, fimmtudaginn 15. maí,  í salarkynnum Taflfélags Reykjavíkur í Faxafeni og hefst að venju kl. 19:30.

 

Næsta mót verður haldið að viku liðinni.