Stigahæstu keppendur A-flokks, alþjóðlegi meistarinn, Jón Viktor Gunnarsson, og Fide meistarinn, Einar Hjalti Jensson, leiða á Haustmóti T.R. með fullt hús að loknum tveimur umferðum. Jón Viktor sigraði stórmeistara kvenna, Lenku Ptacnikovu, í annari umferð en Einar Hjalti lagði Jóhann H. Ragnarsson. Áður hafði Einar sigrað Mikael Jóhann Karlsson í frestaðri skák úr fyrstu umferð. Alþjóðlegi meistarinn, Sævar Jóhann Bjarnason, er í öðru sæti með 1,5 vinning eftir jafntefli við Kjartan Maack. Fjórir skákmenn hafa 1 vinning. Í þriðju umferð mætast m.a. Sævar og Einar og Daði Ómarsson og Jón Viktor.
Í B-flokki sér ungdómurinn um að leiða. Oliver Aron Jóhannessonm, Jón Trausti Harðarson og Dagur Ragnarsson eru allir með fullt hús. Umferðin var þó nokkuð óvenjuleg því Oliver fékk vinning gegn Elsu Maríu Kristínardóttur í ótefldri skák og Dagur fékk sigur dæmdan í skák sinni gegn Sveinbirni Jónssyni þegar sími þess síðarnefnda hringdi eftir að aðeins átta leikir höfðu verið tefldir. Það þarf vart að taka fram að hljóð frá síma þýðir umsvifalaust tap. Jón Trausti sigraði hinsvegar Emil Sigurðarson í fullkláraðri skák. Eiríkur K. Björnsson og Nökkvi Sverrisson koma næstir með 1,5 vinning. Í þriðju umferð verður sannkallaður toppslagur en þá mætast einmitt Jón Trausti og Dagur.
Í opnum C-flokki leiða Ingvar Egill Vignisson og Dawid Kolka með fullt hús en fjórir skákmenn koma næstir með 1,5 vinning. Ingvar lagði Bjarnstein Þórsson en Dawid sigraði Arsenij Zacharov. Líkt og í B-flokki verður toppslagur í þriðju umferð þegar Dawid og Ingvar mætast.
- Bein útsending
- Úrslit, staða og pörun
- Myndir
- Skákir
- 1. umf
- Upplýsingar