Jólaskákmót SFS og TR – Rimaskóli sigraði í eldri flokki



Þessi pistill birtist áður á skak.is en vegna tæknilegra örðugleika er um síðbúna birtingu á vef T.R. að ræða.

Mánudaginn 3. desember kl. 17 fór Jólaskákmót Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur (SFS) og Taflfélags Reykjavíkur í eldri flokki fram. Skákmótið var fyrir nemendur úr 8.- 10. bekkjum grunnskóla Reykjavíkurborgar. Í þessum skákmótum, Jólaskákmótum SFS og TR í yngri og eldri flokki, er jafnan gert ráð fyrir verðlaunum fyrir þrjár efstu drengjasveitirnar (eða opnu sveitirnar, þar sem sveitirnar eru blandaðar stúlkum og drengjum) og þrjár efstu stúlknasveitirnar.

 

Þetta mót var nú haldið í 30. sinn, en einungis 4 skólar sendu sveitir til leiks í eldri flokki og engin stúlknasveit var með. Í samanburði við þátttökuna hin síðustu ár, þá hafa sveitirnar verið um og yfir 10. Engjaskóli hefur jafnan teflt fram stúlknasveitum og voru þær nú víðs fjarri sem og Laugalækjarskóli og Álftamýrarskóli sem tóku þátt í fyrra. Þeir skólar sem sendu sveitir til leiks voru Árbæjarskóli, Hagaskóli, Hólabrekkuskóli og Rimaskóli.

 

Það verður að teljast verðugt verkefni fyrir skólana í Reykjavík að hvetja bæði drengi og stúlkur á unglingastiginu til þátttöku í skákmótum. Taflfélag Reykjavíkur og SFS (og áður ÍTR) hafa um áratugaskeið verið í samstarfi með skákmót fyrir nemendur grunnskóla Reykjavíkurborgar, bæði Jólaskákmótin fyrir yngri og eldri flokk og svo Reykjavíkurmót grunnskólasveita. Það gæti því verið markmið hjá þeim skólum sem gera skákinni hátt undir höfði innan veggja skólans, að stuðla að þvi að nemendur taki þátt í þessum skákmótum fyrir hönd skólans.

 

Þeir unglingar sem mættu fyrir hönd sinna skóla á mánudaginn var, stóðu sig með prýði og tefldu tvöfalda umferð, samtals 6 umferðir með 15. mín. umhugsunartíma.

 

Í öruggu 1. sæti urðu piltarnir úr Rimaskóla með 22,5 af 24 v.

 

  1. Dagur Ragnarsson
  2. Oliver Aron Jóhannesson
  3. Jón Trausti Harðarson
  4. Kristófer Jóhannesson
  1. vm. Theodór Örn Inacio Ramos Rocha

 

Heildar úrslit urðu sem hér segir:

  1. Rimaskóli 22,5 v. af 24 v.
  2. Hagaskóli 13 v.
  3. Árbæjarskóli 8,5 v.
  4. Hólabrekkuskóli 4 v.

 

 

 

Jólaskákmótið fór fram í félagsheimili Taflfélags Reykjavíkur. Mótsstjóri var Soffía Pálsdóttir, SFS. Skákstjórar voru Ólafur H. Ólafsson, sem hefur verið skákstjóri í öll 30 árin og Sigurlaug Regína Friðþjófsdóttir, formaður T.R. Birna Halldórsdóttir sá um veitingar á meðan mótinu stóð.

 

 

Pistill og myndir: Sigurlaug Regína Friðþjófsdóttir