Jólamót TR og SFS – Metþátttaka!



Hið árlega Jólaskákmót Taflfélags Reykjavíkur og Skóla og frístundasviðs Reykjavíkurborgar hefst á morgun sunnudag í skákhöll T.R. Faxafeni 12 með keppnin í yngri flokki.

Aldrei áður hafa jafnmargar sveitir verið skráðar til leiks eða 52 en í fyrra sem þá var met tóku 44 sveitir þátt.  Mótið í fyrra tókst frábærlega og eflaust á það þátt í metþátttöku í ár, en ekki síður ber hún blómlegu skákstarfi í skólum og út í taflfélögum borgarinnar fagurt vitni. Vikulega sækja t.d. hátt í 100 krakkar og unglingar skákæfingar Taflfélags Reykjavíkur sem er mikil aukning frá því í fyrra og virðist ekkert lát á fjölguninni.

Í yngri flokki (1.-7. bekk) eru hvorki meira né minna en 43 sveitir skráðar til leiks og munu þær keppa í tveimur riðlum.  Keppni hefst í suður riðli kl. 10.30 og norður riðli kl. 14.00.  Tvær efstu sveitir í hvorum riðli munu síðan tefla til úrslita innbyrðis á mánudaginn en þá fer einnig fram keppni í eldri flokki (8.-10. bekk).  Níu sveitir eru skráðar til leiks þar sem er fjölgun um eina sveit frá því í fyrra.

Ingunnarskóli og Rimaskóli senda flestar sveitir til leiks í yngri flokki, 5 sveitir hvor skóli.  Í eldri flokki senda Laugarlækjarskóli og Rimaskóli tvær sveitir hvor skóli.

Rimaskóli er núverandi meistari í bæði opnum og stúlknaflokki yngri flokksins.  Rimaskóli sigraði í opnum flokki hjá eldri krökkunum í fyrra en stúlknaflokkinn sigraði sveit Breiðholtsskóla.

Tefldar verða 6 umferðir með 10 mínútna umhugsunartíma og fjórir þátttakendur eru í hverri sveit. 

Foreldrar, aðstandendur og skákáhugamenn eru hvattir til að mæta og fylgjast með ungviðinu okkar tefla á fjölmennasta barna og unglingaskákmóti hvers árs.

Sjáumst!