Jóhann sigurvegari fimmtudagsmóts



Þær voru hugrakkar sálirnar sem lögðu leið sína í húsakynni Taflfélagsins í gærkvöldi.  Veðurofsinn var slíkur að það var engu líkara en að veðurguðirnir væru að ausa úr skálum reiði sinnar vegna fjármálafyllerís þjóðarinnar hin síðari ár.

En að skákinni.  Þetta sinnið tefldu allir við alla, níu umferðir þar sem skotta litla fékk einnig að vera með þó nokkuð hafi verið á reiki hverskonar form hún skyldi taka.  TG-ingurinn sterki, Jóhann H. Ragnarsson, hafði sigur að lokum með 7 vinninga en fast á hæla honum með 6,5 vinning komu hinir ungu og efnilegu, Helgi Brynjarsson og Páll Andrason, en báðir hafa þeir verið afar traustir á mótinu og eru ávallt á meðal efstu manna.

Að venju var gert hlé eftir fimm umferðir og gæddu menn sér á ljúffengum smákökum og renndu þeim niður með svalandi jólaöli í tilefni komandi hátíða.

Úrslit urðu annars eftirfarandi:

  • 1. Jóhann H. Ragnarsson 7 v af 9
  • 2-3. Helgi Brynjarsson, Páll Andrason 6,5 v
  • 4-5. Rafn Jónsson, Kristján Örn Elíasson 5,5 v
  • 6-7. Óttar Felix Hauksson, Þórir Benediktsson 4,5 v
  • 8. Birkir Karl Sigurðsson 3 v
  • 9. Jón Gunnar Jónsson 2 v

Næsta mót fer fram nk. fimmtudag en það verður síðasta fimmtudagsmót ársins og af því tilefni verður spennandi jólagjöf í boði og eru allir skákmenn sérstaklega hvattir til að mæta og skapa skemmtilega jólastemningu.  Taflmennskan hefst kl. 19.30.