Ingvar Þór Jóhannesson er genginn í raðir uppeldisfélags síns Taflfélags Reykjavíkur á ný eftir nærri 15 ára dvöl hjá öðrum taflfélögum. Ingvar verður félaginu mikill liðsstyrkur, bæði við taflborðin en ekki síður í starfi félagsins þar sem reynsla hans og þekking mun án efa reynast félaginu dýrmæt.
Ingvar er Fíde meistari með 2343 skákstig og hefur hann þegar náð tveimur IM áföngum. Ingvar hefur náð eftirtektarverðum árangri við taflborðin í gegnum tíðina, bæði á sínum yngri árum og hin seinni ár. Ein eftirminnilegasta frammistaða Ingvars var í Hafnarfirði árið 2003 þegar hann kom öllum að óvörum og hlaut bronsverðlaun í sterkum landsliðsflokki Íslandsmótsins. Ingvar hreppti silfurverðlaun á Íslandsmótinu í hraðskák árið 2013, hann varð hlutskarpastur á Haustmóti Taflfélags Reykjavíkur árið 2016, hann vann Kringluskákmótið árið 2016 og hann varð efstur á minningarmóti um Sveinbjörn Sigurðsson árið 2017.
Ingvar hefur stýrt landsliðum Íslands, bæði í opnum flokki og kvennaflokki, á fjölmörgum stórmótum á borð við EM 2005, 2015, 2017 sem og ÓL 2014 og 2016.
Ingvar hefur aukinheldur verið iðinn við kolann við að miðla þekkingu sinni og reynslu með greinaskrifum, fréttaskrifum og síðast en ekki síst með lærdómsríkum og skemmtilegum skákmyndböndum á Youtube rás sinni Zibbit. Þá hefur Ingvar komið að mörgum stórum skákviðburðum á Íslandi, þar á meðal Reykjavíkurskákmótinu þar sem hann hefur í nokkur skipti stýrt beinum útsendingum og skákskýringum.
Það ríkir mikil gleði í herbúðum Taflfélags Reykjavíkur nú þegar einn af fræknustu sonum félagsins hefur snúið aftur. Velkominn heim, Ingvar!