Páskaeggjasyrpa Nóa Síríus og Taflfélags Reykjavíkur hélt áfram í dag þegar annað mótið af þremur fór fram. Tæplega 40 vaskir skákkrakkar mættu til leiks og var venju samkvæmt teflt í aldursflokkum 2000-2006 sem og 2007 og yngri. Þess má geta að yngsti keppandinn, Jósef Omarsson, er fæddur árið 2011 en hann hefur staðið sig afar vel í syrpunni. Sannarlega efnilegur piltur þar á ferð!
Baráttan í báðum flokkum var jöfn og spennandi þó svo að báðir sigurvegarar hafi komið í mark með fullt hús vinninga. Í eldri flokki sigraði Stephan Briem eftir að hafa lagt alla sína andstæðinga en næstur honum með 5 vinninga kom Alexander Már Bjarnþórsson og þá var Benedikt Þórisson þriðji með 4,5 vinning. Stúlknaverðlaun hlaut Elísabet Xi Sveinbjörnsdóttir en hún nældi sér í 3 vinninga.
Í yngri flokki var niðurstaðan nánast sú sama og í fyrsta mótinu. Aftur lagði Gunnar Erik Guðmundsson alla sína andstæðinga og ljóst er að það er erfitt að eiga við kauða. Adam Omarsson var annar með 5 vinninga og þá kom Batel Mirion þriðja í mark með 4 vinninga, jafnmarga vinninga og Bjartur Þórisson en ofar eftir stigaútreikning. Batel hlýtur einnig stúlknaverðlaun yngri flokks.
Við þökkum fyrir samveruna í dag og hlökkum til að hitta ykkur aftur næstkomandi sunnudag þegar þriðja og síðasta mót syrpunnar fer fram. Heildarúrslit má sjá hér.