Ungstirnið Vignir Vatnar Stefánsson vann í dag öruggan sigur í fjórðu umferð Heimsmeistarmóts ungmenna og er nú í 25.-41. sæti með 2,5 vinning. Þar með snéri Vignir blaðinu við eftir tap í þriðju umferð en í dag hafði hann svart gegn tékklenskum keppanda með 1806 Elo-stig. Líkt og í annarri umferð beitti Vignir Vatnar Sikileyjarvörn gegn kóngspeðsbyrjun hvíts og úr varð nokkuð óhefðbundið klassískt afbrigði varnarinnar.
Hvítur tefldi byrjunina nokkuð rólega og eftir að sleppa því að leika 10. Rd5 og langhrókfæra í staðinn fékk okkar maður færi á að grípa frumkvæðið og jafnaði taflið auðveldlega. Á meðan að Vignir stillti mönnum sínum upp til sóknar á drottningarvæng gerði hvítur lítið á kóngsvæng Vignis. Það leiddi til þess að hvítur varð að vanda sig til að missa ekki tökin í vörninni sem var einmitt það sem gerðist eftir 19. leik hvíts.
Vignir var hér að enda við að leika 18..Dc7-d7 og hótar þar með riddaranum á b5. Hér leikur hvítur best 19. Rxc5 og og neyðir svartan til að loka hinni dýrmætu c-línu. Hvítur gáði hinsvegar ekki að sér og lék 19. Dd2? sem gefur svörtum færi á að nýta sér hinn öfluga c4-reit og óheppilega stöðu hvíta riddarans og drottningarinnar á f1-a6 skálínunni. Vignir svaraði að bragði 19..Ra4 en gat leikið best 19..Rxe4! og hvíta staðan verður erfið.
Hér er hótun svarts að leika 20..Bc4 sem vinnur hvíta riddarann á b5 og við henni bregst hvítur best við með 20. Ra3 sem valdar c4-reitinn og kemur riddaranum af hinum hættulega b5-reit. Í snúinni stöðunni lék hvítur hinsvegar 20. Rd2?? sem fór langleiðina með að tapa skákinni því Vignir lék að bragði 20..Bc4!
Hvítur gat lítið gert og lék 21. Rxc4 sem Vignir svaraði eðlilega með 21..Dxb5 með allskyns vandræðum fyrir hvítan. Tvöföld hótun er á riddaranum á c4 sem er leppur og reyni hvítur að valda hann með 22. b3 leikur svartur 22..Rc3+ og hvíta drottningin fellur. Að auki þarf hvítur að gæta að máthótuninni á b2. Liðstap hjá hvítum varð ekki umflúið og staðan í raun töpuð hér. Lokin urðu 22. Ka1
22..Rxb2! og hvítur gafst upp saddur lífdaga.
Góð skák hjá Vigni sem vann þarna mikilvægan sigur sem verður gott veganesti í fimmtu umferðina þar sem hann stýrir hvítu mönnunum gegn norskum keppanda með 1836 Elo-stig. Efstir í flokki Vignis með fullt hús vinninga eru Hvít-Rússinn Viachaslau Zarubitski, Indverjinn Srivatshav P Rahul og Rúmeninn David Gavrilescu, sem vann undrabarnið Awonder Liang óvænt með svörtu eftir slæman fingurbrjót þessa síðarnefnda. Á morgun þriðjudag fara fram tvær umferðir og hefst sú fyrri kl. 8 í fyrramálið að íslenskum tíma og sú seinni kl. 15.
Skák Vignis í heild sinni má nálgast hér.
- Chess-Results
- Heimasíða mótsins
- Beinar útsendingar(mótssíða)
- Beinar útsendingar (Chessdom)