HM barna og unglinga hefst í dag



Í dag hefst í Porto Carras í Grikklandi heimsmeistaramót barna og unglinga.  Sjö ungmenni frá Taflfélagi Reykjavíkur taka þátt í mótinu og á félagið fulltrúa í öllum aldursflokkum nema þeim yngsta, 8 ára og yngri.

Veronika_Steinunn_Magnúsdóttir

Í elsta aldursflokki stúlkna (U18) tekur þátt landsliðsstúlkan Veronika Steinunn Magnúsdóttir (1773).  Áttatíu stúlkur taka þátt í flokknum og stigahæst er Adela Velikic frá Serbíu með lítil 2363 stig.  Það verður skammt stórra högga á milli hjá Veroniku sem teflir með kvennasveit Íslands á Evrópumótinu sem hefst hér í Reykjavík um miðjan nóvember.

Það verður gaman að fylgjast með gengi Veroniku Steinunnar sem þrátt fyrir ungan aldur hefur mikla reynslu af stórmótum erlendis og hefur keppt t.a.m. nokkrum sinnum á Gibraltar stórmótinu.

 

Í flokki sextán ára og yngri keppa tveir strákar úr TR, tvíburabræðurnir sterku Björn Hólm Birkisson (1852) og Bárður Örn Birkisson (1985).

Barður BjornH

Þeir bræður hafa verið afar sigursælir á mótum hérlendis og unnu á dögunum Íslandsmeistaratitil unglingasveita með A sveit Taflfélagsins.  Þá varð Bárður Íslandsmeistari í sínum aldursflokki um seinustu helgi.  Þeir bræður eru því í fantaformi og verður fróðlegt að fylgjast með gengi þeirra.  Gríðarlega sterkir strákar taka þátt í þessum flokki og stigahæstur 150 keppenda er ítalski alþjóðameistarinn Francesco Rambaldi frá Ítalíu með 2547 stig

Hilmir3

Í flokki fjórtán ára og yngri tekur Hilmir Freyr Heimisson (2009) úr TR þátt.  Hilmir var líkt og bræðurnir Bárður og Björn í sigursveit TR á Íslandsmóti unglingasveita og vann einnig á dögunum Íslandsmeistartitilinn í sínum flokki.  Hilmir hefur þrátt fyrir ungan aldur mikla reynslu og afrekaskráin orðin löng.  Í þessum flokki keppa 150 krakkar og stigahæstur þeirra er alþjóðlegi meistarinn Amin Tabatabaei frá Íran (2488).

Vignir

Í flokki tólf ára og yngri teflir svo ungstirnið okkar Vignir Vatnar Stefánsson (2033).  Vignir var fjórða hjólið undir vagni sigursveitar TR á Íslandsmóti unglingasveita og tefldi þar á fyrsta borði.  Afrekaskrá hans er orðin mjög löng og drengurinn með mikla keppnisreynslu.  Hann hefur margsinnis keppt á Norðurlandamótum, Evrópumótum og Heimsmeistaramótum og oft á tíðum náð frábærum árangri. 150 krakkar taka þátt í flokknum og hittir Vignir þar fyrir marga “gamla” kunningja eins og stigahæstu keppendurna FM Nodirbek Abdusartorov frá Uzbekistan (2432!) og FM Awonder Liang (2365) frá Bandaríkjunum.

Freyja Robert

Í flokki tíu ára og yngri koma tveir fulltrúar Íslands úr röðum TR þau Robert Luu (1514) og Freyja Birkisdóttir (1293).  Bæði urðu þau Íslandsmeistarar á dögunum í sínum flokkum og í hraðri framför.  Í flokki Róberts er stigahæstur Javokhir Sindarov (2299!) frá Uzbekistan og í stúlknaflokknum Isil Can (1795) frá Tyrklandi.

Taflfélag Reykjavíkur óskar þessum krökkum sem og öðrum fulltrúum Íslands góðs gengis á mótinu og munum við fylgjast spennt með ykkur!  Fyrsta umferð hefst kl. 13 að íslenskum tíma.   Áfram Ísland!

Heimasíða mótsins

Íslensku keppendurnir

Chess results

Beinar útsendingar