Það er heldur betur hlaupin spenna í a-flokk Haustmótsins en áttunda og næstsíðasta umferð fór fram í gær. Engin jafntefli voru að þessu sinni og náði Fide meistarinn, Sigurbjörn Björnsson (2300), Sverri Þorgeirssyni (2223) á toppnum með sigri á Þorvarði Ólafssyni (2205), en á meðan tapaði Sverrir fyrir stórmeistaranum, Þresti Þórhallssyni (2381).
Sverrir og Sigurbjörn eru því efstir og jafnir með 5,5 vinning fyrir síðustu umferðina þar sem þeir mætast í hreinni úrslitaskák. Alþjóðlegi meistarinn, Guðmundur Kjartansson (2373), er þriðji með 5 vinninga en hann hefur tekið vel við sér eftir rólega byrjun og hefur nú unnið þrjár skákir í röð.
Staðan á toppi b-flokks þéttist þar sem alþjóðlegi meistarinn, Sævar Bjarnason (2148), vann Ögmund Kristinsson (2050) og er því jafn honum í 2.-3. sæti með 5,5 vinning, einum vinningi á eftir Stefáni Bergssyni (2102), sem gerði jafntefli við Jorge Fonseca (2024). Stefáni nægir því jafntefli í síðstu umferðinni þar sem hann mætir Þór Valtýssyni (2078) til að tryggja sigurinn.
Páll Sigurðsson (1884) hefur tryggt sér öruggan sigur í c-flokknum þar sem hann hefur hreinlega farið á kostum. Í áttundu umferð lagði hann Inga Tandra Traustason (1840), sem hefur heldur misst dampinn. Páll hefur 7,5 vinning en Atli Antonsson (1770), er annar með 5 vinninga eftir nokkurn heppnissigur á Sigurjóni Haraldssyni (1906). Jafnir með 4,5 vinning í 3.-5. sæti eru svo Jon Olav Fivelstad (1875), Jón Úlfljótsson (1926) og Ingi Tandri.
Páll Andrason (1665) hefur svo gott sem tryggt sér sigur í d-flokki. Hann hefur 6,5 vinning eftir jafntefli við Guðmund Lee (1595). Jafnir í 2.-3. sæti með 5,5 vinning eru Snorri Karlsson (1585) og Eiríkur Örn Brynjarsson (1650) en þeir mætast í síðustu umferðinni.
Í opnum e-flokki er Grímur Björn Kristinsson yfirburðarmaður og leiðir enn með fullu húsi. Þá heldur hin unga, Veronika Steinunn Magnúsdóttir áfram að standa sig vel og fylgir honum fast á eftir með 7 vinninga. Fimm keppendur koma næstir með 5,5 vinning.
Níunda og síðasta umferð fer fram á miðvikudagskvöld og hefst kl. 19.30.
Allar upplýsingar á heimasíðu mótsins.