Haustmótið 7. umferð: Sverrir eykur forystuna



Sjöunda umferð Haustmótsins fór fram í gærkvöldi og eru línur nú nokkuð farnar að skýrast.  Til gamans má nefna að engin skák vannst á svart í a- og b-flokki, fjórum skákum af fimm lauk með jafntefli í a-flokki og allar fimm skákirnar unnust á hvítt í b-flokknum.

Einu hreinu úrslitin í a-flokki komu í skák alþjóðlega meistarans, Guðmundar Kjartanssonar (2373), og Daða Ómarssonar 2172), sem var í öðru sæti fyrir umferðina.  Viðureignin var athyglisverð í ljósi þess að þeir tveir berjast um titilinn, Skákmeistari Taflfélags Reykjavíkur, og einnig var spennandi að sjá hvort Guðmundur héldi áfram góðri siglingu sinni síðari hluta mótsins og tækist að leggja Daða, sem farið hefur mikinn að undanförnu.

Í stuttu máli sagt átti Daði, sem hafði svart, nokkuð undir högg að sækja í skákinni og að lokum var komið út í endatafl þar sem riddari Guðmundar var mun sterkari en biskup þess fyrrnefnda.  Því fór að Guðmundur sigraði nokkuð örugglega.  Við þetta skaust Guðmundur upp í 4. sætið en hann hefur nú unnið tvær skákir í röð.

Á meðan atti forystusauðurinn, Sverrir Þorgeirsson (2223), kappi við nafna sinn og liðsfélaga, Sverri Örn Björnsson (2161), sem var neðstur fyrir umferðina.  Skákin var jöfn þar sem fá færi voru gefin og lauk henni með jafntefli eftir 50 leiki.  Líkast til hefur Sverrir Örn átt einhverja vinningsmöguleika í endataflinu á þeim tímapunkti en mjög lítill tími var eftir hjá keppendunum og við þannig aðstæður er erfitt að vera að taka einhverja sénsa.

Þar með jók Sverrir Þ. forystu sína um hálfan vinning og leiðir með 5,5 vinning en Daði kemur næstur með 4,5 vinning ásamt Fide meistaranum, Sigurbirni Björnssyni (2300), sem gerði jafntefli við Guðmund Gíslason (2346), eftir að hafa misst af vinningi um miðbik skákar.  Sigurbjörn tefldi hvasst og fórnaði skiptamun fyrir mikla sókn og úr varð hin mesta skemmtun.

Sverrir er því í kjörstöðu fyrir síðustu tvær umferðirnar en hann á erfiða andstæðinga eftir, stórmeistarann, Þröst Þórhallsson (2381), og Sigurbjörn.

Staðan á toppi b-flokks breyttist ekki þar sem efstu menn unnu sínar viðureignir.  Stefán Bergsson (2102) fékk snemma betra tafl gegn Erni Leó Jóhannssyni (1960) og vann nokkuð örugglega.  Ögmundur Kristinsson (2050) vann Kristján Örn Elíasson (1980) eftir að sá síðarnefndi hafði fórnað fullmörgum peðum fyrir litlar sem engar bætur.  Þá lagði alþjóðlegi meistarinn, Sævar Bjarnason (2148) Magnús Magnússon (2046).

Stefán er því enn efstur með 6 vinninga, næstur kemur Ögmundur með 5,5 vinning og Sævar er þriðji með 4,5 vinning.  Stefán telst sigurstranglegur þar sem hann er búinn að tefla við Ögmund og Sævar en þeir eiga hinsvegar eftir að tefla innbyrðis.

Í c-flokki þurfti stigahæsti keppandinn, Siguringi Sigurjónsson (1944), að hætta þátttöku og er þar með þriðji keppandinn sem hættir í mótinu.  Slíkt setur alltaf leiðinlegan svip á mótin, sérstaklega þegar um lokaða flokka er að ræða, og setur aðra keppendur í vandræði.  Þó ber að líta til þess að Haustmótið stendur yfir í langan tíma og þá getur alltaf komið eitthvað upp hjá keppendum.  Ástæðurnar þurfa þó að vera góðar og gildar.

Páll Sigurðsson (1884) fékk því frían vinning gegn Siguringa á meðan Atli Antonsson (1770) skaust upp í 3. sætið með sigri á Inga Tandra Traustasyni í furðulegri og hressilegri skák þar sem Atli var með mun betra mestalla skákina.  Í lokin var Ingi hinsvegar kominn með mun betra tafl en lék illa af sér í tímahrakinu.

Páll er með 6,5 vinning á toppnum, tveim vinningum meira en Ingi Tandri sem er annar með 4,5 vinning.  Atli kemur næstur með 4 vinninga.  Páll á því sigurinn næsta vísan.

Í d-flokki hefur fækkað nokkuð á toppnum.  Páll Andrason (1665) er enn efstur með 6 vinninga eftir frían vinning gegn Hjálmari Sigurvaldasyni (1360) sem er hættur keppni.  Snorri Karlsson (1585) og Eiríkur Örn Brynjarsson (1650) fylgja honum eftir með 5 vinninga.  Snorri vann Kristján Heiðar Pálsson (1477) nokkuð örugglega og Eiríkur sigraði Hrund Hauksdóttur (1588) eftir laglega sókn.  Páll er sigurstranglegur enda hefur hann mætt bæði Snorra og Eiríki sem eiga eftir að tefla innbyrðis.

Grímur Björn Kristinsson heldur enn forystunni í opna e-flokknum með fullu húsi en í gær vann hann hina ungu og efnilegu, Sóleyju Lind Pálsdóttur.  Veronika Steinunn Magnúsdóttir er önnur með 6 vinninga og Rafnar Friðriksson er þriðji með 5 vinninga.

Áttunda og næstsíðasta umferð fer fram á sunnudag og hefst kl. 14.

Allar nánari upplýsingar á heimasíðu mótsins.