Jafnteflunum rigndi niður í fimmtu umferð U-2000 mótsins sem fór fram síðastliðið miðvikudagskvöld. Alls lauk ellefu viðureignum af 22 með skiptum hlut og var þar á meðal orrusta efstu manna mótsins, þeirra Haraldar Baldurssonar (1957) og Dawid Kolka (1907), og eru þeir enn efstir með 4,5 vinning hvor. Kjartan Ingvarsson (1822) sigraði Friðgeir Hólm (1739) í snarpri skák og þá sigraði Hilmar Þorsteinsson (1800) Agnar Darra Lárusson (1755). Með sigrunum komu Kjartan og Hilmar sér fyrir í 3.-4. sæti með 4 vinninga hvor.
Þrátt fyrir hátt jafnteflishlutfall áttu nánast allar viðureignirnar það sameiginlegt að einkennast af mikill baráttu þar sem sverð voru ekki slíðruð fyrr en allt var reynt til að knýja fram sigur. Nokkuð var um jafntefli á milli keppenda þar sem stigamunur er allnokkur. Má þar nefna viðureign Helga Péturs Gunnarssonar (1801) og Stephan Briem (1594) en Stephan hefur verið á hraðsiglingu að undanförnu. Þá gerði Arnar Milutin Heiðarsson (1358) gott jafntefli gegn Aðalsteini Thorarensen (1714). Liðsfélagi Stephans og Arnars hjá Breiðablik, Örn Alexandersson (1217), var síðan óheppinn að landa ekki sigri gegn Lárusi H. Bjarnasyni (1594) eftir að hafa haft gjörunnið tafl um miðbik skákar. Jafntefli varð niðurstaðan þar sem Örn hafði hrók og biskup gegn hróki Lárusar. Þá ber að nefna góðan sigur Jóhanns Bernhards Jóhannssonar (1426) gegn Páli Þórssyni (1771) í afar snarpri og snaggaralegri skák.
Sérstaklega góð stemning skapaðist á meðan taflmennskan fór fram þar sem keppendur einbeittu sér að sínum eigin skákum á milli þess sem þeir athuguðu gang mála í níundu skák heimsmeistaraeinvígisins sem varpað var upp í sal TR. Ótrúlegt en satt þá fór skák þeirra Karjakin og Carlsen einnig jafntefli!
Sjötta umferð fer fram næstkomandi miðvikudagskvöld og hefst venju samkvæmt kl. 19.30. Þá hefur Dawid hvítt gegn Hilmari, Veronika Steinunn Magnúsdóttir (1778) hefur hvítt gegn Haraldi og Kjartan stýrir hvítu gegn Óskari Haraldssyni (1732).