Haraldur efstur fyrir lokaumferð U-2000 mótsins



Það var hart barist í sjöttu og næstsíðustu umferð U-2000 móts TR síðastliðið miðvikudagskvöld og nokkuð var um sigra þeirra stigalægri gegn þeim stigahærri. Á efsta borði gerðu Dawid Kolka (1907) og Hilmar Þorsteinsson (1800) jafntefli en við hlið þeirra sigraði Haraldur Baldursson (1957) Veroniku Steinunni Magnúsdóttur (1778) og skaust þar með einn í efsta sætið með 5,5 vinning. Dawid kemur næstur með 5 vinninga ásamt Kjartani Ingvarssyni (1822) sem lagði Óskar Haraldsson (1732). Hilmar fylgir þeim eins og skugginn með 4,5 vinning.

Hinn ungi Stephan Briem (1594) heldur áfram góðu gengi og gerði nú jafntefli við hinn margreynda Friðgeir Hólm (1739) eftir að hafa lengi reynt að vinna endatafl þar sem hvor hafði drottningu en Stephan hafði að auki tvö samstæð peð. Þá sigraði Ólafur Evert Úlfsson (1464) Helga Pétur Gunnarsson (1801) með svörtu og hin ungu Arnar Milutin Heiðarsson (1358), Freyja Birkisdóttir (1186) og Benedikt Briem (1077) höfðu betur gegn mun stigahærri andstæðingum.

Sjöunda og síðasta umferð fer fram næstkomandi miðvikudagskvöld og verður blásið til leiks kl. 19.30. Þá mætast á efstu borðum Haraldur og Jon Olav Fivelstad (1918), Dawid og Kjartan, sem og Hilmar og Friðgeir. Áhorfendur velkomnir. Alltaf heitt á könnunni!

Öll úrslit ásamt skákum mótsins og myndum aðgengileg hér að neðan.