Halldór Brynjar og Matthías Kjeld efstir á Viðeyjarmótinu



Viðeyjarmótið fór fram við góðar aðstæður í Viðeyjarstofu sunnudaginn 7. júlí. Þátttaka var nokkuð góð, 24 manns. Nóg er samt plássið: Það geta um 50 manns komið sér þægilega fyrir á 2. hæð Viðeyjarstofu að tafli! Mótið hafði dálítið norrænt ívaf að þessu sinni. Hinn norskættaði Jon Olav Fivelstad var skákstjóri og auk þess tók sænsk fjölskylda þátt, faðir og tveir synir. Sem fyrr var mótið haldið í samstarfi við Eldingu og Borgarsögusafn. Eitthvað urðu skákmenn varir við auglýsingu mótsins á Facebook og Instagram. Skemmtileg nýjung sem laðar að nýja þátttakendur, en einhverra hluta vegna lesa ekki allir taflfelag.is og skak.is. Óskiljanlegt! 

 

Að þessu sinni voru tefldar 9 umferðir með tímamörkunum 3+2 og virtist baráttan vera á milli Halldórs Brynjars Halldórssonar, Matthíasar Kjeld og Gauta Páls Jónssonar. Að lokum endaði það svo að Halldór hrl. vann mótið á oddastigum með 7 vinningum. Matthías vann Gauta í lokaumferðinni en var lægri en Halldór á oddastigum. Alexander Oliver Mai kom síðan “af hlið” og fékk 6.5 vinning, jafnmarga og Gauti, og voru þeir jafnir í 3.-4. sæti. Alexander vann fjórar síðustu skákir sínar í röð. Hinn 14 ára gamli Svíi, Arild Norberg, hækkaði mest á stigum eða um 45 stig. 

 

Á myndunum er Halldór í þungum þönkum gegn Andrii Prudnykov. Myndirnar tók Eiríkur K. Björnsson. 

 

Mótið á chess-results.

videy2024_1

videy2024_2