Guðmundur vann í 6. umferð Czech Open



Alþjóðlegi meistarinn, Guðmundur Kjartansson (2356), var ekki lengi að komast aftur á beinu brautina eftir tap í fimmtu umferð á Czech Open því í þeirri sjöttu lagði hann þýska alþjóðlega meistarann, Michael Thorsten Haub (2483).

Guðmundur hafði hvítt og Þjóðverjinn svaraði 1. e4 með g6 sem hefur ekki komið Guðmundi á óvart enda sá þýski þekktur fyrir fátt annað en þennan byrjunarleik gegn hverju sem hvítur leikur í fyrsta leik.  Að venju virtist Guðmundur koma vel undirbúinn til leiks og átti ekki í neinum vandræðum að tefla þessa byrjun.  Hann virtist feta ótroðnar slóðir, lokaði fljótt á Þjóðverjann og átti öll færin sjálfur þegar fram í miðtaflið var komið.

Fljótlega opnaðist staðan og varð nokkuð flókin, eitthvað sem þykir ekki fréttnæmt þegar Guðmundur á í hlut, og gat hann klárað skákina nokkrum sinnum með fyrnasterkum leikjum.  Guðmundur gerði sér þetta þó nokkuð erfitt fyrir og kom sér í endatafl þar sem hann hafði hrók, riddara og eitt peð gegn hróki og tveimur peðum þess þýska.  Guðmundur tefldi lokin af miklu öryggi, útilokaði kóng svarts frá frekari þátttöku og tókst síðan að ná fram uppskiptum á hrókunum sem varð til þess að Þjóðverjinn gafst upp eftir 73 leiki.

Guðmundur er í 3.-9. sæti með 5 vinninga en efstir og jafnir með 5,5 vinning eru stórmeistararnir, Viktor Laznicka (2617), Tékklandi, og Dmitry Maximov (2485), Úkraínu.  Í sjöundu umferð, sem hefst á morgun kl. 13, stýrir Guðmundur svörtu mönnunum gegn stigahæsta keppanda mótsins, Azerbaijanum, Rauf Mamedov (2645).  Sem fyrr verður skákin í beinni útsendingu á heimasíðu mótsins.

Guðmundur teflir í opnum a-flokki þar sem 295 skákmenn taka þátt en hann er númer 109 í röðinni.  Stigahæstur er Azerbaijinn, Rauf Mamedov (2645).

Heimasíða mótsins

Skákirnar í beinni

Chess-Results

Skákir til niðurhals