Enn heldur Guðmundur Kjartansson (2356) áfram þátttöku sinni á erlendum skákmótum og tekur nú þátt í þriðja og síðasta móti sínu í þessum túr en hann hóf leik í dag á Skoska meistaramótinu. Ásamt honum tekur annar TR-ingur þátt, Aron Ingi Óskarsson (1876).
Í fyrstu umferð sem fram fór í dag mætti Guðmundur þýska skákmanninum Fan Zhang (2058) og bar sigur úr býtum. Aron Ingi tapaði hinsvegar fyrir Skotanum Keith Emery (1585). Á morgun fer fram önnur umferð en þá mætir Guðmundur Graeme Kafka (2077) og Aron teflir við Dominic Foord (2069).
Teflt er í einum opnum flokki og eru 88 keppendur skráðir til leiks. Stigahæstur er skoski stórmeistarinn Jonathan Rowson (2591). Guðmundur er 13. stigahæsti þáttakandinn en Aron Ingi er nr. 59 í röðinni.
Skoska meistaramótið er án vafa eitt elsta skákmót í heiminum sem haldið hefur verið samfellt. Mótið í ár er það 116. í röðinni en það var fyrst haldið árið 1884.
Heimasíða mótsins
Skákirnar í beinni