Grand Prix mót í kvöld



Hið sívinsæla Grand Prix mót Taflfélags Reykjavíkur og Skákdeildar Fjölnis verður haldið í kvöld, fimmtudagskvöld kl. 19.30. Mótsstaður er Skákhöll Reykjavíkur, Faxafeni 12.

Að þessu móti loknu verður farið að taka saman stöðu keppenda í Grand Prix mótaröðinni, en eins og menn vita verða vegleg verðlaun fyrir heildarstig í keppninni, ferð á Politiken Cup mótið í Danmörku næsta sumar.

Það er um að gera fyrir menn að mæta sem oftast til að safna stigum í pottinn. Hvert mót getur talið, þegar upp er staðið. Samkvæmt óformlegri könnun vefstjóra stendur Davíð Kjartansson, FIDE meistari úr Skákdeild Fjölnis, best að vígi.

Daði Ómarsson, hinn efnilegi skákmaður úr T.R. sigraði á mótinu sem fram fór sl. fimmtudag.

Þátttökugjald er 500 fyrir fullorðna, en frítt er í mótið fyrir unglinga 15 ára og yngri.