Davíð Kjartansson tryggði sér nú í kvöld sigur á Haustmóti Taflfélags Reykjavíkur 2008 þegar hann lagði Þór Valtýsson í lokaumferðinni. Fyrr hafði Hrafn Loftsson komist vinningi fram fyrir Davíð eftir sigur á Jóni Árna Halldórssyni í flýttri skák en þeirri skák lauk afar slysalega þegar farsími Jóns hringdi í miðri skák. Davíð varð því að innbyrða sigur í níundu og síðustu umferð til að ná Hrafni, sem hann og gerði en þeir urðu efstir og jafnir með 6,5 vinning en Davíð er hærri á stigum.
Hrafn Loftsson varði titil sinn frá því í fyrra og er Skákmeistari Taflfélags Reykjavíkur 2008 en hann hlaut hálfum vinningi meira en keppinautur hans, Torfi Leósson sem hafnaði í þriðja sæti með 5,5 vinning.
Keppni í b-flokki lauk ekki síður með mikilli dramatík en þar sigraði Jorge Fonseca Bjarna Jens Kristinsson í lokaumferðinni og náði Bjarna þar með á vinningafjölda en varð svo hærri á stigum og er því sigurvegari b-flokks með 6,5 vinning. Stefán Bergsson og Helgi Brynjarsson höfnuðu í 3.-4. sæti með 5,5 vinning.
Ólafur Gísli Jónsson tryggði sér sigur í c-flokki með tiltölulega auðveldum sigri á Páli Sigurðssyni sem lék af sér í byrjuninni og fékk erfiða stöðu í kjölfarið. Ólafur hlaut 7 vinninga, Matthías Pétursson varð annar með 6,5 vinning og jafnir í 3.-4. sæti urðu Patrekur Maron Magnússon og Páll Sigurðsson með 5 vinninga.
D-flokki lauk á ævintýralegan hátt því á meðan að Rafn Jónsson sigraði lauk skákum Barða Einarssonar og Harðar Haukssonar með jafnteflum. Þetta þýddi að þeir þrír urðu efstir og jafnir með 6 vinninga hver. Hinn ungi og efnilegi Hörður Aron Hauksson stóð þó uppi sem sigurvegari flokksins eftir stigaútreikninga, Barði Einarsson varð annar og Rafn Jónsson þriðji.
Í e-flokki sigraði Páll Andrason örugglega með 8 vinninga, annar varð Emil Sigurðarson með 7 vinninga en þrír urðu jafnir í 3.-5. sæti með 6 vinninga.
- Öll úrslit og lokastöðu má nálgast á Chess-Results
- Skákir mótsins
- Myndir frá mótinu (Björn Jónsson smellti af)
Verðlaunaafhending fer fram sunnudaginn 23. nóvember en þá fer jafnframt fram hausthraðskákmót Taflfélags Reykjavíkur sem verður nánar auglýst síðar.
Taflfélag Reykjavíkur Elsta og virkasta skákfélag landsins