Davíð Kjartansson sigraði á stórmóti Árbæjarsafns og Taflfélags Reykjavíkur



Stórmót Árbæjarsafns og TR fór fram í kornhlöðunni í Árbæjarsafni í gær.  Þátttakan var heldur minni en undanfarin ár og kann að skýrast af því að mótið fór nú fram tveimur dögum á eftir Borgarskákmótinu.  Það var þó vel skipað og tveir af verðlaunahöfum Borgarskákmótsins voru mættir til leiks, Fide meistararnir Davíð Kjartansson og Róbert Lagerman.

Arbaejarsafnsmotid_2015-13

Davíð Kjartansson lagði alla andstæðinga sína 7 að velli.

Davíð Kjartansson sem hafnaði í öðru sæti á Borgarskákmótinu fór nú mikinn og  vann yfirburðarsigur.  Sigraði hann alla andstæðinga sína, hlaut sjö vinninga af sjö mögulegum og varð heilum tveimur vinningum á undan næstu mönnum. Í öðru til fimmta sæti urðu þeir Róbert Lagerman, Bárður Örn Birkisson og Gylfi Þórhallsson og Þorvarður Fannar Ólafsson með fimm vinninga.

Líkt og á Borgarskákmótinu tóku nokkur af okkar efnilegustu skákkrökkum þátt í bland við eldri og reyndari meistara.  Kristján Dagur Jónsson (10) stóð sig vel og krækti í þrjá vinninga með góðu jafntefli við gamla brýnið Jón Víglundsson í lokaumferðinni.  Þá var árangur Bárðar Birkissonar eftirtektarverður en hann tapaði einungis gegn Fide meisturunum tveimur en sigraði aðra andstæðinga sína.

Tvær stúlkur tóku þátt, þær Sigríður Björg Helgadóttir sem hlaut 3 1/2 vinning og Freyja Birkisdóttir (2v).

Skákstjórn var í öruggum höndum Torfa Leóssonar líkt og undanfarin ár.

Heildarúrslit má finna á chess-results hér

Myndir frá mótinu: 

Taflfélag Reykjavíkur vill þakka þeim sem tóku þátt og Árbæjarsafni fyrir að hýsa mótið í Kornhlöðunni sem er án vafa einn skemmtilegasti og mest sjarmerandi skáksalur landsins.

Sjáumst að ári!