Breytt fyrirkomulag á Laugardagsæfingum TR



Frá og með 23. janúar til og með 27. febrúar verður stigakeppni á laugardagsæfingum Taflfélags Reykjavíkur sem og barna- og unglingamótum félagsins.

skak1

Allir krakkar á grunnskólaaldri (fædd 2000 og síðar) sem ekki hafa náð 1600 Elo-stigum hafa þátttökurétt á skákæfingunum og fjórða móti Bikarsyrpunnar. Þá hafa allir krakkar á grunnskólaaldri þátttökurétt á Barna- og Unglingameistaramóti Reykjavíkur. Einungis krakkar sem eru félagsmenn í TR safna stigum í stigakeppninni. Þátttaka á æfingunum er ókeypis fyrir alla.

Á laugardagsæfingunum verður teflt í 2 flokkum: A-flokki fyrir krakka sem hafa Elo-stig og B-flokki fyrir krakka sem hafa ekki stig. Tefldar verða 5 umferðir með umhugsunartímanum 7 mínútur + 5 sekúndur á hvern leik og stendur hver æfing yfir frá kl.14 til kl.16. Krakkar í A-flokki eru í sér stigakeppni og krakkar í B-flokki eru í sér stigakeppni. Veitt verða verðlaun fyrir 3 efstu í hvorum flokki að lokinni laugardagsæfingu 27. febrúar.

Stigagjöfin er þannig að 1 stig fæst fyrir mætingu, 2 stig fyrir 4.sæti, 3. stig fyrir 3. sæti, 4 stig fyrir 2. sæti og 5 stig fyrir 1.sæti. Ef krakkar verða jöfn að vinningum þá fá þau öll jafnmörg stig.

Til viðbótar við laugardagsæfingar verða tvö barna- og unglingamót hluti af stigakeppninni, það er Bikarsyrpa TR helgina 12.-14. febrúar og Barna- og unglingameistaramót Reykjavíkur sunnudaginn 21.febrúar.

Á þessum tveimur mótum verða veitt tvöföld stig í stigakeppninni, það er 2 stig fyrir mætingu, 3 stig fyrir 8. sæti, 4 stig fyrir 7. sæti, 5 stig fyrir 6.sæti, 6 stig fyrir 5.sæti, 7 stig fyrir 4.sæti, 8 stig fyrir 3.sæti, 9 stig fyrir 2.sæti og 10 stig fyrir 1.sæti.

Fyrirkomulag byrjenda-, stúlkna- og afreksæfinga breytist ekki. Hér að neðan má sjá yfirlit yfir þá viðburði þar sem breytt fyrirkomulag gildir.

  • Laugardagar kl. 14-16: Opin skákæfing fyrir alla fædda 2000 og síðar og með minna en 1600 Elo-stig – ókeypis fyrir alla
  • Fös-sun 12. – 14. febrúar: 4. mót Bikarsyrpunnar – ókeypis fyrir félagsmenn TR, kr. 1.000 fyrir aðra
  • Sun 21. febrúar: Barna- og unlingameistaramót Reykjavíkur – ókeypis fyrir alla

Við hlökkum til að sjá ykkur á spennandi æfingum og mótum í janúar og febrúar!