Bikarsyrpan hafin



Bikarsyrpa TR hófst í dag þegar 18 ungmenni settust niður tilbúin að stýra sínum 16 manna her um hina 64 köflóttu reiti. Keppendalistinn samanstendur af krökkum sem eru nú þegar komin með allnokkra reynslu af þátttöku í skákmótum en stigahæstur þeirra er Blikapilturinn öflugi, Gunnar Erik Guðmundsson (1350).

20170825_175123

Úrslit fyrstu umferðar voru á þann veg að sá stigahærri sigraði þann stigalægri en því fer fjarri að allir sigrarnir hafi komið áreynslulaust. Má þar til að mynda nefna að hinn ungi Jósef Omarsson, fæddur 2011, tefldi prýðilega gegn hinum margreynda Árna Ólafssyni (1251), og þá var Einar Tryggvi Petersen með vænlega stöðu gegn Tómasi Möller (1137). Jafntefli gerðu svo Soffía Berndsen og Tristan Thoroddsen í viðureign sem hafði alla burði til að vera framhaldið.

Önnur umferð fer fram á morgun og hefst kl. 10. Þá mætast m.a. á efsta borði Gunnar Erik og Tómas.