Atli vann í 5. umferð Politiken



Atli Antonsson (1720) sigraði Svíann, Hannu L. Edvardsson (1300), í fimmtu umferð Politiken Cup sem fram fór í dag.  Daði Ómarsson (2091) tefldi ekki.

Daði er með 2 vinninga 179.-240. sæti en Atli 1,5 vinning í 241.-269. sæti.

Alþjóðlegi meistarinn, Bragi Þorfinnsson (2377) og Bjarni Jens Kristinsson (1985) unnu sína andstæðinga í dag en Ólafur Gísli Jónsson (1899) tapaði.

 Á efsta borði sigraði rússneski stórmeistarinn, Vladimir Malakhov (2707), úkraínska stórmeistarann,  Yuri Kuzubov, í 110 leikja maraþonskák og er því efstur með 5 vinninga ásamt danska stórmeistaranum, Peter Heine Nielsen (2680) og sænska stórmeistaranum, Jonny Hector (2556).

Bragi er efstur Íslendinganna með 4 vinninga og verður skák hans í sjöttu umferð, sem fer fram á morgun kl. 11, í beinni útsendingu á heimasíðu mótsins.  Daði mætir Dananum, Palle Nielsen (1877), en Atli mætir Þjóðverjanum,  Bergit Brendel (2046).

Að þessu sinni eru 307 skákmenn skráðir í aðalmót Politiken Cup en þar af eru fimm Íslendingar og á meðal þeirra eru tveir úr Taflfélagi Reykjavíkur; Daði Ómarsson (2091) sem er einn efnilegasti skákmaður landsins og Atli Antonsson (1720), sem snýr nú aftur að skákborðinu eftir nokkurra ára hlé.  Aðrir Íslendingar á mótinu eru alþjóðlegi meistarinn, Bragi Þorfinnsson (2377) úr Taflfélagi Bolungarvíkur, Bjarni Jens Kristinsson (1985) úr Helli og Ólafur Gísli Jónsson (1899) úr KR.

Stigahæstur keppenda er rússneski stórmeistarinn, Vladimir Malakhov (2707)  en margir þekktir skákmenn taka þátt, s.s. danski stórmeistarinn, Peter Heine Nielsen (2680), hollenski stórmeistarinn, Sergei Tiviakov (2674) og rússneski stórmeistarinn, Alexey Dreev (2660).

Heimasíða mótsins