Alexander Oliver leiðir í U-2000 mótinu



20171108_193308

Alexander Oliver Mai (1875) er á nýjan leik einn efstur þegar fimm umferðum af sjö er lokið í U-2000 móti Taflfélags Reykjavíkur. Hefur hann hlotið 4,5 vinning en í næstu sætum með 4 vinninga eru Stephan Briem (1895), Haraldur Baldursson (1935), Páll Andrason (1805), Kristján Geirsson (1556) og Jón Eggert Hallsson (1648). Spennan er því mikil fyrir lokaumferðirnar tvær og ljóst að það má lítið út af bera hjá efstu mönnum til að staðan breytist. Minnt er á að nú er hlé á mótinu vegna hins alþjóðlega Norðurljósamóts og því fer sjötta og næstsíðasta umferðin fram miðvikudagskvöldið 22. nóvember.

20171108_193410

Margar spennandi og skemmtilegar orrustur voru háðar síðastliðið miðvikudagskvöld þar sem Páll og Haraldur gerðu jafntefli á efsta borði í nokkuð tvísýnni viðureign. Á öðru borði hafði Alexander betur gegn Óskari Víkingi Davíðssyni (1777) í snarpri sóknarskák þar sem sá fyrrnefndi fórnaði sem aldrei fyrr og uppskar mikla kóngssókn. Óskar Víkingur þurfti að gefa drottningu sína til að forða máti en var þó með allnokkurt lið upp í kellu og gerði sitt besta í að verjast áhlaupi hvítu mannanna sem þvinguðu svarta kónginn alla leið frá kóngsvæng yfir á A8 reitinn þar sem hann lenti að lokum í mátneti. Á þriðja borði sigraði Jón Eggert Jon Olav Fivelstad (1950) í lengstu baráttu kvöldsins eftir hrikalegan fingurbrjót þess síðarnefnda í lok skákar eftir að hafa verið með unnið tafl fyrr í skákinni og þá hafði Jón Eggert boðið jafntefli í steindauðri stöðu skömmu áður. Skákin er harður skóli!

20171108_193337

Í sjöttu og næstsíðustu umferð sem fer fram miðvikudagskvöldið 22. nóvember mætast á efstu borðum Haraldur og Alexander, Jón Eggert og Stephan, sem og Kristján og Páll. Áhorfendur eru hvattir til að mæta og fá stemninguna beint í æð ásamt hinu ljúffenga TR-kaffi sem aldrei er langt undan.