Hvað er yfirseta eða bye?
Í mörgum skákmótum á Íslandi er boðið upp á yfirsetu. Að taka yfirsetu þýðir einfaldlega að keppandi situr hjá í þeirri umferð og fær í staðinn hálfan vinning. Þetta er algengt í flestum mótum þar sem teflt er eftir svokölluðu svissnesku pörunarkerfi þar sem tefldar eru til dæmis 9 umferðir, þá er stundum gefinn möguleiki á að sleppa skák, og fá í staðinn hálfan vinning.
Þetta er ekki hægt í móti þar sem allir tefla við alla!
Hugsunin á bakvið yfirsetu að ef maður kemst ekki í einhverja umferð í fyrri hluta móts (Í bikarsyrpu 1.-5. umferð) þá er samt hægt að taka þátt í mótinu. Þetta er því neyðarúrræði til að komast til móts við aðstæður þar sem ekki er hægt að vera með, sem getur oft gerst í nútímasamfélagi. Þetta er þjónusta sem er í boði til að gera sem flestum kleift að vera með. Maður græðir aldrei á yfirsetu. Ef það eru til dæmis fjórir efstir með jafnmarga vinninga í lok móts og einn þeirra tók yfirsetu, þá er það alltaf sá sem tekur yfirsetuna, sem er neðstur í útreikningunum.